Skemmtanir

Jónsmessan var haldin 24. Júní. Það hefur verið einkennismerki Keilis í gegnum tíðina að halda veglega upp á Jónsmessu ár hvert og hefur mætingin alltaf verið góð hjá félagsmönnum. Í ár vorum við að sjálfsögðu að fagna Jónmessu með golfi í 50. sinn. Það er mikil breyting á aðstöðu hjá okkur þegar við getum tekið á móti yfir 100 manns í salinn okkar, en áður þurftum við að takmarka þáttöku við 80 manns. Þrátt fyrir meira pláss þá tóku einungis þátt um 31 lið. Vonandi tekst okkur að fylla á næsta ári.

Bændaglíma var haldin laugardaginn 7. október, þátttakan var mjög góð og voru það 50 lið sem tóku þátt í bændaglímunni í ár.  Bændur voru þeir Jón Boði Björnsson, sem er einn af stofnendum Keilis, og Guðríður Hjördís Baldursdóttir.  Lið Guðríðar sigraði naumlega með tveimur höggum.

Þorrablótið á sér fastan sess í skemmtanalífi okkar Keilismanna, alltaf hefur tekist að fylla á þetta kvöld. Að vanda var blótið haldið á bóndadaginn og verður svo áfram á næsta ári.

Afreksmannahóf  Keilis er fastur liður á hverju ári en hófið var haldið að venju í janúar. Afreksfólki Keilis ásamt mökum var boðið til hófsins. 

Á miðvikudagskvöldum eru bridgekvöld en spilakvöldin hafa verið haldin allt frá því að við fluttum í þennan golfskála. Í ár byrjar bridgeið frekar rólega og bíða bridge spilarar eftir því að fleiri láti sjá sig. Það eru fáir atburðir eins fastir í sessi í félagslífinu ef golfið er undanskilið. Frá upphafi hefur Guðbrandur Sigurbergsson haft umsjón með þessum kvöldum. Minnum við á að allir eru velkomnir á þessi kvöld. 

Áhugasamir félagar um knattspyrnu hittast líka á laugardagsmorgnum og tippa.

Öllum félagsmönnum er velkomið að mæta og taka þátt í getraunastarfsemi Keilis og mynda nýja hópa. Þess má geta þess að Balli er alltaf með heitt á könnunni.