Hjá Keili fer fram öflugt íþróttastarf þar sem að allir geta fundið æfingar og þjálfun við sitt hæfi. Golfklúbburinn Keilir er fyrirmyndarfélag ÍSÍ frá því í vor.

Úr kynningaefni um fyrirmyndarfélag ÍSÍ:

“Íþróttahreyfingin gerir kröfur til samfélagsins um stuðning, bæði aðgang að mannvirkjum og beinan fjárstuðning. Íþróttahreyfingin vill að litið sé á þennan stuðning sem endurgjald fyrir þjónustu sem hún veitir öllum þegnum samfélagsins.

Til þess að slíkar kröfur séu trúverðugar og réttlætanlegar þarf íþróttahreyfingin að sýna það í verki að hún geri raunhæfar kröfur til sjálfrar sín hvað varðar gæði og innihald þess starfs sem hún vinnur. Þetta hefur hún gert með samþykkt stefnuyfirlýsinga um afmarkaða málaflokka, þar sem fram kemur að hvernig starfi sé stefnt. Slíkar stefnuyfirlýsingar hafa m.a. verið samþykktar um barna-og unglingastarf, menntun þjálfara og forvarnastarf.

Með því að taka upp gæðaviðurkenningu fyrir íþróttastarf geta íþróttafélög eða deildir sótt um viðurkenningu til ÍSÍ miðað við þær gæðakröfur sem íþróttahreyfingin gerir. Standist þau þessar kröfur fá þau viðurkenningu á því frá ÍSÍ og geta kallað sig fyrirmyndarfélag ÍSÍ“

Sú vinna um barna- og ungmennastarf Keilis er afrakstur stefnumótunarvinnu  sem unnin var undir forystu Karls Ómars Karlssonar, íþróttastjóra Keilis og PGA kennara hjá golfklúbbnum, í samvinnu við Björgvin Sigurbergsson, yfirþjálfara, og íþróttanefnd og foreldraráð Golfklúbbsins Keilis.

Unnið var eftir stefnuyfirlýsingu ÍSÍ um barna- og unglingastefnu. Golfklúbburinn Keilir starfar eftir þeirri stefnu í hvívetna. Einnig var höfð til hliðsjónar stefna ÍBH og ÍSÍ í íþrótta og afreksmálum.

Við viljum alltaf gera gott starf betra og halda því við sem golfklúbburinn Keilir er þekktur fyrir, frábæran árangur, besta golfvöll á Íslandi og góða aðstöðu til golfiðkunar. 

Helstu íþróttaleg markmið í barna og ungmennastarfi klúbbsins 

  • Skipuleg og markviss þjálfun geti skapað börnum og unglingum færi á því að verða kylfingar alla ævi.
  • Jafnframt er gert ráð fyrir því að þau sem það vilja velji sér afreksstefnu til að æfa eftir þannig að þau geti orðið afreksmenn seinna meir.
  • Golfiðkun skal vera þroskandi líkamlega, félagslega og sálrænt.

Með því móti skapast aðstæður fyrir mun fleiri börn og unglinga að njóta sín og æfa golf hjá Keili.

  • Ráða til sín vel menntaða þjálfara.
  • Þjálfun barna á við um börn 12 ára og yngri, en þjálfun ungmenna við einstaklinga á aldrinum 13 ára og til og með 20 ára.

Þjálfarar munu kappkosta að gera starfið skemmtilegt og að það spyrjist út meðal krakka og ungmenna að það sé gaman í golfi.

Félagsleg markmið:

  • Helsta markmið starfsins er að gefa öllum jöfn tækifæri til að stunda golf. Öll börn og unglingar sem vilja stunda íþróttir til þess að svala félagsþörf sinni fái að stunda golf við sitt hæfi.
  • Það er markmið stjórnar GK að hver og einn félagsmaður verði stoltur að því að vera félagsmaður í golfklúbbnum Keili, félagsstarfið verði blómlegt og hann geti stundað golf eins og honum hentar í fallegu umhverfi á einum besta velli landsins.
  • Fjölga félögum í starfinu með kynningum á golfíþróttinni í leikskólum og grunnskólum í Hafnarfirði.
  • Koma í veg fyrir brottfall.

Félagslegi þátturinn má alls ekki gleymast í þjálfuninni. Til þess að hópurinn kynnist og samlagist betur þurfa þau einnig að hittast utan æfinga til að bæta andann í hópnum. Það er hægt að gera á ýmsan hátt. Það er hægt að fara í æfingaferðir, bíó, keilu, sund og fleira auk þess sem hægt er að hafa DVD/video kvöld, borða pizzu saman eða hafa spilakvöld. Oft þarf að gera eitthvað í þessum dúr til þess að einstaklingum líði vel og þeim finnist þeir vera hluti af hópnum.

Það má ekki gleyma því að margir iðkendur eru í golfi nær eingöngu upp á félagsskapinn og það ber að virða það.

Þjálfarar Keilis skulu því vera vakandi fyrir því að rækta félagslega þáttinn í þjálfuninni og reyna þannig að auka ánægju iðkenda.

Markmið með félagsstarfinu hjá Keili

  • að vekja, hlúa að og efla áhuga kylfinga fyrir þroskandi félagsstarfi
  • að miða félagsstarf við þarfir og samkennd iðkenda
  • að gefa iðkendum tækifæri til að takast á við ný og fjölbreytt viðfangsefni
  • auka samvinnu og hópvinnu
  • að fræða
  • að auka virðingu fyrir reglum og siðum