Íslandsmót
Það var ljóst strax í upphafi ársins að þetta yrði mjög stórt mótaár hjá Keili, en Íslandsmótið í golfi var sett á Hvaleyrina á afmælisárinu. Að sjálfsögðu var nefnd sett í málið og setti hún sér markmið með mótahaldinu. Aðaláherslur í mótahaldinu áttu að vera vösk sveit sjálfboðaliða, uppákomur fyrir áhorfendur, góð þjónusta við sjónvarpsútsendingu og golfvöllur í toppástandi, ásamt vandaðri upplifun fyrir keppendurna sjálfa.
Það er mikilvægt að geta leitað liðsinnis góðra félaga sem eru tilbúnir að gefa tímann sinn þegar haldin eru stórmót í golfi. Það er ekki sjálfgefið að hægt sé að ganga að góðu sjálfboðaliðastarfi vísu. Til þess þarf mikið skipulag og góða stjórn. Það var strax ljóst að til þess að halda Íslandsmótið í golfi á Hvaleyrarvelli, svo sómi væri af, þurfti yfir 250 sjálfboðaliða yfir mótsdagana. Aðaláherslan við mótahaldið varð að vera góð upplýsingagjöf til áhorfenda, keppenda og fjölmiðla, ásamt góðri umgjörð fyrir keppendur eins og þekkist á stærstu áhugamannamótum erlendis.
Það var ekki auðvelt að finna réttu aðilana til þess að stjórna slíku starfi. Þeir aðilar þurfa að vera fyrstir á vettvang á hverjum degi og síðastir heim í lok dags. Vinnudagar hjá yfirmönnum sjálfboðliðastarfs á Íslandsmóti hefjast klukkan 06:00 og lýkur langt eftir miðnætti. Það krefst mikillar undirbúningsvinnu að hafa yfir 80 manns á hverjum degi við störf og tryggja að þeir viti nákvæmlega hvað eigi að gera, hvenær og hvernig.
Már Sveinbjörnsson var boðinn og búinn til þess að taka þátt í þessari miklu vinnu og skipulag og framkvæmd sjálfboðaliðastarfs Íslandsmótsins undir hans stjórn var gallalaus. Má tókst jafnframt að gera það sem ekki er sjálfgefið, en það er að fá fólk í félagsskap eins og golfklúbbnum Keili til þess að líta á sjálfboðaliðastarfið sem eftirsóknarvert og skapa frábæran anda og samstöðu í hópnum.
Má Sveinbjörnssyni eru þökkuð frábær störf, en hann var valinn sjálfboðaliði ársins á þingi Golfsambandsins 2017.
Einnig hlaut mótanefnd Keilis liðsinnis Harðar Geirssonar, en Hörður hefur í gegnum tíðina verið ómetanlegur hlekkur í mótastarfi Keilis. Hann hefur leitt starf dómara Keilis og í kringum Landsmótið sá hann alfarið um þá hlið mála. Hann safnaði saman sjálfboðaliðum af öllu landinu og, líkt og Már, hefur Hörður þann eiginleika að fá fólk til að gefa tíma sinn með bros á vör.
Án Harðar hefði Íslandsmótið aldrei geta verið jafnt faglegt og dómaramál verið í jafn góðum höndum eins og raun bar vitni. Herði er kærlega þakkað fyrir sitt óeigingjarna starf í þágu golfklúbbsins Keilis og hjálpina við að gera Íslandsmótið í golfi jafn glæsilegt og raun bar vitni.
Daníel Rúnarsson hafði á herðum sínum upplýsingagjöf til fjölmiðla og keppenda, en þetta var í fyrsta skipti þar sem allar upplýsingar vegna mótahaldsins voru settar inn á sérstaka síðu mótsins. Gerð voru myndskeið sem útskýrðu fyrir keppendum hvaða breytingar hefðu verið gerðar á vellinum, hver helstu atriði sem best var að vita í kringum mótahaldið væru og útskýrðu aðgengi að mótssvæðinu. Þessi vinna hlaut lof keppenda og þökkum við Daníel sérstaklega fyrir hans framlag við mótahaldið.
Það má því með sanni segja að þessir þrír aðilar hafi sett sérstaklega mikinn svip á mótahaldið.
Einnig má ekki gleyma stærsta styrktaraðila mótsins en það er Eimskip. Mótahaldið hefði ekki getað verið jafn vel úr garði gert nema með myndarlegum fjársstyrk frá Eimskip. Eimskip hefur verið stoð og stytta í mótahaldi á Íslandi til margra ára og er þeim þakkað kærlega fyrir þeirra aðild að mótahaldinu.
Þeir sem skipuðu mótanefnd Íslandsmótsins í golfi 2017 voru:
Ólafur Þór Ágústsson
Arnar Borgar Atlason
Daníel Rúnarsson
Hörður Geirsson
Jón Júlíus Karlsson
Tinna Jóhannsdóttir
Bergsteinn Hjörleifsson
Sigurður Pétur Oddsson
Hér eftir fara þakkir formanns Keilis, framkvæmdastjóra Keilis og forseta GSÍ til handa Keilismönnum fyrir að fá að halda Íslandsmót á Hvaleyrarvelli.