Eldri kylfingar Keilis

Mótaröð 65+ 

Eins og undanfarin sumur var haldin mótaröð Keilisfélaga 65 ára og eldri.

Starfshóp um mótaröðina skipa Már Sveinbjörnsson, Lucinda Grímsdóttir, Björk Ingvarsdóttir, Erna Jónsdóttir, Gunnar Hjaltalín og Þórir Gíslason. Einnig störfuðu með hópnum Ólafur Þór Ágústsson og Vikar Jónasson ásamt öðrum starfsmönnum Keilis, eftir því sem við átti.

Mótaröðin eru 7 punktamót, haldin á fimmtudögum, dreift á sumarið og eins og undanfarin tvö sumur var keppt við jafnaldra í golfklúbb Kópavogs og Garðabæjar (GKG) og leikið heima og að heiman.

Mótsdagar voru eftirfarandi sumarið 2024: 13. júní, 20. júní, 17. júlí á Leirdalsvelli, Garðabæ, 27. júlí, 1. ágúst , 15. ágúst, 22. ágúst með gestum frá GKG og 12. september. Mótið 15. ágúst var fellt niður vegna veðurs og urðu keppnisdagar sumarsins 6 í stað 7.

Mótin eru safnmót þannig að með þátttöku í þeim safna kylfingar stigum samkvæmt frammistöðu sinni í hverju móti fyrir sig og telja fjögur bestu mót hvers kylfings eftir sumarið til verðlauna. Stig fyrir hvert mót reiknast þannig: 1. sæti = 100 stig, 2. sæti = 80 stig, 3. sæti = 70 stig, 4. sæti = 60 stig, 5. sæti = 50 stig, 6. sæti = 40 stig, 7. sæti = 30 stig, 8. sæti = 20 stig, 9. sæti = 10 stig og 10. sæti = 10 stig. Ef tveir kylfingar eru jafnir að stigum í lok mótaraðarinnar gildir hærra skor í síðasta móti til sætis, eða næsta móti á undan, ef leikmenn hafi ekki tekið þátt í síðasta móti og svo framvegis. 

Þátttakendur í mótaröðinni greiddu 2.000 kr. mótsgjald í hvert mót, 1.000 krónur voru fyrir súpu og brauð eftir hvert mót og 1.000 krónur, sem gengu til verðlauna fyrir árangur í mótinu og heppni í slembiúrtaki á lokahófi. Afreksverðlaun eru inneignarbréf hjá Golfklúbbnum Keili og er hægt að nota þau í golfverslun, í veitingasölu Keilis og til að greiða upp í árgjöldin Keilis.