Ungviðið

Hjá Golfklúbbnum Keili er hægt að æfa golf 2-3 sinnum í viku í 11 mánuði á ári. Auk þess er boðið upp á aukaæfingar fyrir þá kylfinga sem það vilja. Allar upplýsingar um félagsgjöld og æfingatöflu er hægt að skoða á vefsíðu Keilis.

Keppnir barna og unglinga

Í sumar voru leikæfingar einu sinni í viku og fengum við aðstoð frá efnilegum yngri kylfingum til aðstoðar úti á velli. Auk þess voru haldin nokkur mót á Sveinskotsvelli.

Við tókum þátt í krakkamóti PGA á Íslandi. Mótið er eftir bandarískri fyrirmynd og leika kylfingar saman í liðum. Tókst vel til í þessum mótum.

Í júní vorum við með opna U.S.Kids Golfkrakkamót. Leiknar voru 18 holur á Hvaleyrarvelli frá grænum og rauðum teigum og tókst það mót mjög vel.

Golfleikjaskóli Keilis og U.S.Kids Golf

Í sumar var golfleikjaskóli Keilis og U.S. Kids Golf starfræktur. Gerður var samningur við Sportcompanýið (U.S.Kids Golf) sem gildir til þriggja ára. Aldrei hafa fleiri krakkar tekið þátt á þessum námskeiðum og var í sumar og er það vel.

Skólastjóri golfleikjaskólans var Karl Ómar Karlsson íþróttastjóri og honum til aðstoðar voru margir af efnilegustu kylfingum Keilis auk annarra aðstoðarmanna. Markmið skólans er að það er gaman í golfi og að allir eigi að njóta sín. Farið er í þrautir eða leiki sem stuðlar að því að allir hafi gaman af.

Á golfnámskeiðinu er farið yfir alla helstu þætti golfleiksins, reglur og golfsiði á vikulöngum námskeiðum.

Markmið golfleikjanámskeiðanna

  • þau eru fyrir allar stelpur og stráka á aldrinum 5 til 12 ára
  • að fyrstu kynni af golfi eru jákvæð og það er gaman að leika golf
  • farið verður í helstu þætti golfleiksins, allt frá púttum til upphafshögga
  • leiknar eru nokkrar golfholur á golfvelli- kennsla er gjarnan í formi golfleikja ýmisskonar
  • áhersla er á að kynna helstu golfsiði og golfreglur fyrir nemendum
  • iðkendur geta verið með á fleiri en einu námskeiði

Hægt er að velja um námskeið frá kl. 9:00 – 11:45 eða kl. 12:30 – 15:15
Haldin eru tvö námskeið á dag í 5 til 7 vikur á hverju sumri.

Hægt er að fá lánaðan golfbúnað meðan á námskeiði stendur. Allir eiga að mæta með hollt og gott nesti.

Krakkarnir kynnast einnig leikjum og æfingum með svokölluðum SNAG búnaði, en hann hentar sérlega vel til að auðvelda iðkendum að ná betri tökum á íþróttinni og að auka skemmtanagildið.

Allir krakkar sem ljúka námskeiðinu fá aðild að Sveinskotsvelli.

Námskeiðum lýkur með pylsuveislu og afhendingu viðurkenningarskjals frá GK.