Golfvellir og mannvirki

Skýrsla vallarstjóra

Veturinn 2016-17 var mildur og blautur.  Lítið var um frosthörkur og þar af leiðandi ekki mikið um klakavandamál á vellinum. Vetrarskaði ársins 2017 var því ekki af völdum klaka eins og gerst hafði árin á undan. Vandamálið var meira tengt sveppasýkingum en raki og hiti yfir frostmarki ýta undir slík vandamál.  Nokkrar flatir höfðu verið meðhöndlaðar með sveppalyfjum fyrir veturinn og virkuðu þau mjög vel. Þær flatir sem úðaðar voru komu fulkomlega undan vetri, á meðan hinar sem ekki voru meðhöndlaðar létu á sjá og voru þær ekki almennilega búnar að jafna sig fyrr en í júlí.

Þrátt fyrir góðan vetur, þá var nokkuð kalt í lok apríl/byrjun maí, þannig að ekki tókst að opna völlinn fyrr en 6. maí með hreinsunarmótinu.  Hreinsunardagurinn fór fram tveim dögum áður, eða þann 4. maí. Mikið var af sjálfboðaliðum og kunnum við þeim miklar þakkir fyrir þeirra störf.

Golfsumarið var ekki það heitasta sem við höfum upplifað, en það var þó ekki of blautt og heilt yfir ágætt. Þetta sumar fer ekki í sögubækurnar fyrir merkilegt veðurfar, heldur var júlí mánuður með þeim líflegri sem golfklúbburinn hefur af státað.  Í byrjun mánaðarins var haldið veglegt meistaramót klúbbsins. 15. júlí var svo hleypt inn á nýju holurnar (holur 13-15). 20. júlí hófst svo Íslandsmótið í golfi sem lauk með sigri Axels og Valdísar. Helgina eftir landsmót hófst svo Hvaleyrarbikarinn.

Mikið álag var á starfsmönnum þennan mánuðinn. Það var frekar oft sem mæta þurfti kl 04:00 á morgnanna og í eitt skiptið unnu starfsmenn við frá miðnætti til kl 09:00 daginn eftir. Í heild voru 17 dagar lagðir undir mót þar sem allt þurfti að vera í hæstu gæðum. Starfsliðið stóð sig frábærlega undir þessu mikla álagi og eiga hrós skilið fyrir.

Hlýindi voru einkennandi um haustið og var hægt að spila golf á frábærum flötum út október mánuð. Frost skall á í byrjun nóvember og var því vellinum lokað 3. þess mánaðar. Þar með lauk viðburðarríku afmælisári golfklúbbsins.

Árið 2017 var viðburðarríkt ár fyrir vallarstafsmenn. Mikil vinna fór í að gera nýju golfholurnar klárar fyrir opnun 15. júlí. Landsmót og Hvaleyrarbikarinn viku seinna gerðu júlímánuð af einum þéttsetnasta móta-mánuði sem Golfklúbburinn Keilir hefur upplifað í sinni 50 ára sögu. Starfsliðinu verður seint nægilega þakkað fyrir sín vel unnu störf. Það var með ólíkindum að sjá hvað mórallinn var góður hjá öllum þrátt fyrir álagið. Það sýnir sig hversu mikilvægt það er að hafa góða starfsmenn sem vinna vel saman.

Við getum gengið sátt frá borði þó það séu alltaf hlutir sem megi bæta og gera betur. Sveinkotsvöllur stendur þar uppúr. Við vonum að með rólegri tíð í uppbyggingu á Hvaleyrinni skapist rúm til að færa Sveinskotsvöll upp á hærri stall á komandi ári.

Framkvæmdir 2017

Mikið var um framkvæmdir á árinu. Áður en opnað var inn á nýju holurnar þurftir að byggja alla teiga á 13. holunni og rauðan teig á 14. holunni. Allir teigarnir sem byggðir voru í ár voru tyrfðir með torfi af svæðinu og í þá lagðir vökvunarkerfi. Glompur á 14. braut voru hlaðnar. Reynt var að laga drenvandamál í glompum á 15. braut og í vinstri glompu fyrir framan flötina á 13. holu. Að lokum voru báðar glompurnar á 15. holu hlaðnar að nýju.

Drenskurður var lagður hægramegin í brautina á 14. holu, og sett voru í hann tvö opin niðurföll til að ráða við allt það vatn sem þarna safnast í umhleypingum.
Á sveinskotsvelli var klárað að byggja 4. teiga og að auki voru tveir aðrir teigar langt komnir þegar vetur konungur leit við í byrjun nóvember. Samtals voru því 4 stórir bönkerar hlaðnir, stór drenskurður lagður niður, 8 teigar byggðir og grunnurin lagður af tveim til viðbótar.

Allt þetta var gert á sama tíma og völlurinn var undirbúinn fyrir landsmót í golfi sem tókst með miklum sóma.

Æfingasvæði (Hraunkot)

Nú eru 10 ár liðin síðan Hraunkot opnaði. Á þessum tíma hefur svæðið átt sín góðu og slæmu ár. Með tilkomu golfhermanna þá hefur reksturinn aftur jafnast mjög mikið. Í ár var sú ákvörðun tekin að lækka verð í hermana og jókst sala í nóvember mánuði í hermunum um 97,8%. Einnig var lokað á milli lauganna með byggingu á léttum vegg til að slíta starfsemi golfhermana í sundur frá reglulegum æfingum á púttfötinni. Þetta hefur fengið virkilega góðar undirtektir frá viðskiptavinum Hraunkots.

Í haust var ákveðið að stytta opnunartíma afgreiðslu Hraunkots umtalsvert. Virka daga hafi verið opið frá hádegi og sá tími færður til 15:00. Það stendur alls ekki til að stytta opnunartíma skýlanna og er búið að koma fyrir kortalesara á eina af boltaafgreiðsluvélum Hraunkots. Viðskiptavinir geta því komið og keypt sér fötu án þess að afgreiðslan sé opin og notað til þess kort, smámynnt, boltakort eða peningaseðla.

Þá var einnig fjárfest í nýjum sjálfvirkum tínslu- og sláttuvélum á svæðið en þær eiga einnig að spara mikla fjármuni á sumrin og spara eitt stöðugildi á vellinum á næsta ári. Haldið verður áfram að tína bolta með gömlu tínsluvélunum á veturna.

Allt eru þetta liðir í að gera Hraunkot betur í stakk búið að halda áfram að skila arði inn í rekstur Keilis til framtíðar.

Sveinskotsvöllur

Það kom fljótlega í ljós á þessu ári, að við opnun á nýja hluta Hvaleyrarvallar hafi ekki verið næganlega vel hugað að þeim áhrifum sem það myndi hafa á Sveinskotsvöll. Kynnt var bráðabirgðatillaga af vellinu strax við opnun á breytingunum sem féll í grýttan jarðveg og fljótlega varð ljóst að hraðar hendur þyrfti að hafa til að koma Sveinskotsvelli í gott ástand.

Mannvirkjanefnd Keilis fundaði um málið og útúr þeirri vinnu varð til aðgerðaráætlun sem unnið er að fylgja þessa dagana og lýkur næsta vor. Aðgerðaáætlunin fól í sér allsherjar endurskoðun á viðhaldi á vellinum og var úrbótaraðgerðum forgangsraðað.

Forgangslistinn fyrir endurgerð Sveinskotsvallar:

  • Endurskoða tillögu á skipulagi á vellinum
  • Stækka sláttursvæði á brautum og í kringum flatir, gera völlinn þægilegri til golfleiks
  • Byggja teiga á 3., 4., 6., 7. og á 9. braut, fylla uppí glompur sem ekki eru í leik samhliða þeirri vinnu.
  • Koma sjálfvirku vökvunarkerfi í alla teiga og flatir
  • Endurbyggja 9. flötina
  • Setja ný teigskilti við gula og rauða teiga
  • Bæta merkingar/leiðarvísa á milli teiga

Þessar aðgerðir hafa verið settar í algjöran forgang og ættu að laga ásýnd Sveinskotsvallar umtalsvert strax á næst ári. Markmið með Sveinskotsvelli er að bjóða uppá golfafþreyingu sem á að henta öllum félagsmönnum og gestum Keilis, jafnt lengra sem styttra komnum.

Útseld vinna

Útseld þjónusta er sem áður stór hluti af okkar vinnu. Viðhald allra knattspyrnusvæða í Hafnarfirði er að mestu á okkar herðum. Við sjáum sem fyrr um slátt, söndun, götun, yfirsáningar og áburðargjöf á þessum völlum. Til viðbótar við það þá söndum við alla knattspyrnuvelli Reykjavíkurborgar (26 hektara svæði) einu sinni á ári, ásamt því að gata þá velli tvisvar. Tækjakostur klúbbsins gerir okkur kleift að sinna þessari þjónustu á miklu hagkvæmari hátt en aðrir, en tækin okkar eru um 3-6 sinnum afkastameiri en gengur og gerist.

Brýningarþjónustan var að vanda stór þáttur í vetrarvinnu vallarstarfsmanna. Brýnd voru 280 kefli yfir veturinn fyrir viðskiptavini okkar. Að auki er allur okkar vélafloti brýndur um veturinn. Á sumrin eru flatarvélarnar okkar brýndar 2-3 sinnum og allar aðrar vélar minnst einu sinni.

Nýlunda var í ár að leitast var til okkar að úða út efnum sem eru réttindaskyld. Aðeins tveir starfsmenn golfklúbba hérlendis eru með tilheyrandi réttindi til að meðhöndla plöntuvarnarvörur.  Umhverfisstofnun hefur verið í herferð til að tryggja að aðeins þeir sem réttindi hafa geti verslað og úðað slíkum efnum. Fyrir utan að hafa slík réttindi er gaman að segja frá því að Bjarni vallarstjóri kennir á réttindanámskeiði plöntuvanarefna á vegum Landbúnaðarháskóla Íslands.

Kargi

Kylfingar hafa ekki farið varhluta af breytingum á kargaslætti undanfarin ár. Nokkrum svæðum á vellinum hefur verið leyft að vaxa úr sér og þannig viðhald við þau svæði takmörkuð. Þetta er hluti af umhverfisvottun klúbbsins (GEO vottunin). Markmiðin eru nokkur: að auka fjölbreytileika í dýra og plöntulífríki á vellinum (aukin fuglafjöldi er farinn að sjást og fjölbreyttari fauna er augljós); minni losun gróðurhúsalofttegunda; og síðast en ekki síst að spara töluverða fjármuni.

Á árunum 2006-2013 var eytt 500 klst. á ásetuvélum í slátt á kargasvæðum (þarna eru ekki inni svæði sem voru slegin með orfum og loftpúðavélum). Sumarið 2017 voru þessar vinnustundir 270. Þetta er minkun um 46%!  Meðalkostnaður per klst. á kargavél kostar klúbbinn rétt rúmlega 6000 kr (með manni), þannig að sparnaðurinn með þessum aðgerðum hljóðar upp á rúmlega 1.350.000 kr. Á sama tíma höfum við ekki orðið varir við að leikhraði hafi minnkað að neinu leiti.

Einnig hafa svæði sem slegin eru með loftpúðavélum verið fækkað, þá sérstaklega hættulegum svæðum, og þannig hefur einnig sparast töluverðir fjármunir og öryggi starfsmanna aukist.

Þó að það sé þægilegra fyrir margan kylfinginn að karginn séu allur slegin niður, þá er mikill kostnaður fólgin í viðhaldi kargasvæða. Því meira sem slegið er af svæðum því einsleitari verður dýra- og plöntulífríki svæðisins. Það þurfa því að vera góð rök fyrir að slá kargasvæði í ljósi þess mikla kostnaðar sem því fylgir.

Merkingar

Haldið var áfram að smíða vegvísa, teigmerki og aðrar merkingar fyrir golfvöllinn. Með þessari vinnu er verið að vinna að heildarútliti allra merkinga. Þetta verkefni er unnið í samvinnu við Fjölbrautaskólann í Garðabæ þar sem einhverfir einstaklingar sjá um smíðina undir stjórn Guðlaugs Georgssonar. Þessi vinna hefur bætt mjög heildarásýnd golfvallanna og verður gaman að vinna áfram að þessu verkefni með Guðlaugi og hans fólki.

Vélakaup

Keypt voru tvö tæki á árinu, en það var MultiOne 6.3+ liðléttingur og Kubota M6070 traktor á 80 cm breiðum flot dekkjum. Liðléttingurinn er fjölnota tæki sem keyptur var til að leysa mörg verkefni, m.a. til að leysa af hólmi tínsluvél klúbbsins sem sungið hafði sitt síðasta. Það er þó ekki það eina sem tækið gerir, því vélin getur dregið laserhefil klúbbsins sem notaður er til að byggja teiga. Vélin er lítil um sig og hentaði betur en mun stærri Iseki traktor sem notaður var til verksins áður. Sá traktor var því seldur. Liðléttingurinn er þó enn fjölhæfari en þetta, því að á hann er hægt að setja skóflu að framan, lyftaragafla og vélsóp.

Götunarvél klúbbsins er af stærri gerðinni og er hún í raun svo stór að stærsti traktor klúbbsins réð illa við hana. Ljóst var því að ef hún ætti að vera enn í notkun, þá þyrfti öflugri traktor. Ákveðið var að kaupa 70 ha Kubota traktor sem réði létt við götunarvélina. Gallinn við svo stóra traktora er þyngdin, en til að koma í veg fyrir það vandamál voru sett undir 80 cm breið afturdekk og 46 cm breið framdekk (meðal fólksbíladekki er um 20 cm). Með þessum dekkjum flýtur traktorinn ótrúlega vel og skilur eftir sig sáralítil hjólför.

Með nýjum traktor og liðlétting var ljóst að ekki þyrfti lengur að notast við minsta traktorinn sem var í flotanum svo að Ransomes CT333 traktorinn var einnig seldur. Þannig var hægt að selja tvo traktora á árinu og afskrifa eina tínsluvél með tilkomu tveggja nýrra tækja. Nýju vélarnar hafa reynst mjög vel og er mikil ánægja starfsmanna með kaupin enda hefur vinnuaðstaða stórbatnað.

Af smærri tækjum má nefna að á 50 ára afmælisári klúbbsins var rúmlega 50 ára gömul vél keypt. Vélin er af gerðinni Ransomes Certes.  Þetta er gömul vél sem þótti vera „Rolls Royce“ sinnar kynslóðar.  Vélin var keypt í gegnum e-bay og er notuð til að slá hvíta teiga á holum 4, 5 og 13 en þangað komast ekki ásetuvélar.  Fram að tilkomu þessarar vélar var því notast við handsláttuvélarnar sem notaðar eru á flatirnar. Vandinn við þær er þyngdin, slíkar vélar eru um 100 kg. Gamli „Rollsinn“ er aðeins um 25 kg og hefur 8 blöð í valsinum svo að hægt er slá grasið niður í 8 mm. Þó að vélin gangi fyrir handafli starfsmanna, þá eru teigarnir ekki stórir og því ekki mikið átak að notast við vélina. Vélin hefur því auðveldað okkur mikið viðhaldið á þessum teigum. Stundum eru besta lausnin ekki nýjasta og dýrasta tæknin.

Vélamál klúbbsins eru að öðru leyti óbreytt. Enn er því miður ekki nægilegt fjármagn til að viðhalda æskilegri endurnýjun vélaflotans. Meðalaldur stóru sláttuvéla klúbbsins er 13 ár. Þessar vélar kosta samtals um 65-70 milljónir í innkaupum. Að meðaltali höfum við verið að eyða um 7.5 milljón á ári í vélakaup undanfarin 5 ár. Það tæki því klúbbinn 9 ár að endurnýja bara þessar vélar. Þessi vélafloti er þó aðeins um 40% af heildar vélaflota klúbbsins. Meðaltækið verður um 23 ár í notkun hjá klúbbnum á þeim hraða sem við erum að endurnýja vélar á. Það verður að teljast ansi góð notkun.

Erlendir klúbbar sem við erum að bera okkur saman við skipta sínum kjarna flota út á 5 ára fresti. Flottu vellirnir sem við sjáum í sjónvarpinu gera það á 3 ára fresti (þá eru allar vélar alltaf í ábyrgð). Það ætlast enginn til þess að að við séum svo flottir á því en út af því hvernig endursöluverð á þessum tækjum virkar, þá kostar það í raun jafn mikið að skipta á 5 ára fresti og það kostar að gera það á 10 ára fresti.

Það er ekki auðvelt fyrir íþróttafélag að fjármagna svona dýran vélaflota sem nauðsynlegur er til að viðhalda golfvelli eins og Hvaleyrin er. Við reynum að vera eins skynsamir í okkar kaupum og hægt er til að hámarka afköst og gæði. Við reynum okkar allra besta til að halda vélaflotanum í eins góðu ástandi og við getum en með aldri verða vélar óáreiðanlegri. Óáreiðanleiki er ekki æskilegur í bransa þar sem grasið vex áháð ástandi véla og tækja.