Fyrsta mótið á GSÍ mótaröðinni fór fram um helgina þegar Korpubikarinn fór fram á Korpúlfstaðarvelli í Reykjavík. Spilaðar voru 18 holur á föstudag, laugardag og sunnudag en niðurskurður var eftir tvo hringi. Atvinnumennirnir og Keiliskylfingarnir Axel Bóasson og Guðrún Brá Björgvinsdóttir stóðu uppi sem sigurvegarar karla og kvenna, en úrslit úr báðum flokkum réðust á lokaholunni.

Guðrún Brá var eini keppandin í mótinu sem var undir pari að loknu móti en hún endaði mótið á einu höggi undir pari, höggi á undan Ragnhildi Kristinsdóttur úr GR. Keiliskonan Elsa Maren endaði jöfn í fjórða sæti, höggi á eftir Pamelu Ósk Hjaltadóttur sem var í þriðja sæti á 15 höggum yfir pari.

Veður aðstæður helgarinnar voru krefjandi en Guðrún gaf okkur innsýn inní það hvernig hún upplifði rigninguna og rokið sem Golfklúbbur Reykjavíkur bauð keppendum uppá alla þrjá keppnisdagana “Þetta var hörku barátta alla dagana. Ég var ný komin heim frá Spáni þar sem ég var búin að vera að æfa seinustu 3 vikurnar þannig þetta var allt öðruvísi aðstæður en ég var búin að vera æfa í seinustu vikur og þurfi þar af leiðandi að aðlagast fljótt íslenska “sumrinu”. Ég var búin að sjá veðurspánna og var búin að undirbúa mig vel undir það andlega og var með aukaföt til skiptanna í bílnum sem ég gat skipt úr blautu fötunum eftir 9 holur. Eina sem maður getur gert í svona aðstæðum er að vera jákvæður, þolinmóður og hafa gaman að þessu” sagði Guðrún sem mun spila á 4 mótum næstu 5 vikurnar á LET Access mótaröðinni víðsvegar um Evrópu.

Í karlaflokki var einnig gríðarleg spenna en Axel okkar og Aron Emil úr GOS voru jafnir þegar ein hola var eftir. Axel paraði átjándu holuna og endaði á pari vallar, einu höggi á undan næstu mönnum en Aron Emil endaði á þreföldum skolla. Jafnir í öðru sæti á höggi yfir pari voru atvinnumennirnir Aron Snær Júlíusson úr GKG og Andri Þór Björnsson úr GR. Fyrir utan frammistöðu Axels komust Keiliskarlarnir okkar aldrei á strik í mótinu en næst kom Birgir Björn í 21. sæti á 15 höggum yfir pari eftir hringina þrjá.

Axel sagði okkur frá því hvað hann gerði vel þessa vikuna “Ég hélt boltanum vel í leik og var að slá dræverinn mun betur en vanalega. Svo af því ég var góður af teig var auðveldara að koma sér í góðar stöður inná grínin. Svo bara siglaði ég þessu heim með því að fá einföld pör á lokasprettinum.”..”Ég er svo að fara að keppa á Challenge Tour á Novo Santi Petri á Spán. Aðstæður þar eru oft frekar krefjandi sérstaklega útaf vindi þannig ég get tekið helling með mér í mótið núna frá Korpunni”

Við óskum Axel og Guðrúnu hjartanlega til hamingju með glæsilega sigra. Þau hafa sannarlega sett tóninn fyrir komandi vikur en þau eru bæði að keppa í næstu viku á sínum mótaröðum, Guðrún í Tékklandi og Axel á Spáni. Við hjá Keili munum að sjálfsögðu fylgjast ítarlega með genginu hjá þessum meistörum og hvetja þau áfram til dáða í gegnum tímabilið.

Á GSÍ mótaröðinni er Íslandsmótið í holukeppni næst. Þá munu konurnar spila í Mosfellsbæ dagana 14-16 júní og karlarnir á Akranesi 22-24 júní en það mun vera tækifæri fyrir Keiliskylfingana okkar að landa fyrsta Íslandsmeistaratitli sumarsins. Næstu helgi munu ungmennin okkar spila í Nettómótinu á Leirdalsvelli en það mun vera annað mótið á Unglingamótaröðinni í sumar.