Sveinskotsvöllur

Skemmtileg par 3 hola þar sem teigurinn liggur hærra en flötin. Slegið er yfir steingarða af teig sem reynir á einbeitingu kylfingsins. Flötin var enduruppbyggð sumarið 2011 en nýr teigur lítur dagsins ljós vorið 2012.

Falleg par 4 braut sem liggur í hundslöpp til hægri. Þó svo að brautin sé ekki löng þá er töluverð hækkun á milli teigar og flatar sem lengir hana. Flötin er varin af glompu vinstra megin og karga hægra megin.

Þriðja brautin er 250 metra par 4 sem liggur í sveig til hægri. Tvær brautarglompur grípa misheppnuð teighögg en flötin er jafnframt varin af gömlu húsi.

Krefjandi 150 metra löng par 3 hola. Flötin tekur vel við boltum þar sem hún hallar að teignum en hitti kylfingur ekki flöt má búast við boltinn endi í einni þeirra fjögurra glompna sem hana verja.

Þrátt fyrir að vera fremur stutt par 3 braut þá hafa nýjar glompur við flötina gert hana mun meira krefjandi. Jafnframt er flötin á tveimur pöllum og því mikilvægt að koma boltanum á réttan pall ef vel á að fara.

Stutt en skemmtileg par 3 braut. Flötin er byggð upp í hlíðina sem þýðir að allir boltar sem fara vinstra megin við flöt enda langt fyrir neðan flötina og á þá kylfingur eftir erfitt innáhögg. Jafnframt er flötin varin af tveimur glompum.

Lengsta og jafnframt ein skemmtilegasta braut vallarins. Brautin liggur í sveig til hægri meðfram sjónum. Möguleiki er að taka áhættu og slá þvert yfir víkina en sé höggið of stutt endar það í sjónum.
Næstlengsta braut vallarins með tveimur glompum sitthvoru megin við brautina. Flötin er upphækkuð og á tveimur pöllum auk þess að vera varin af myndarlegum hól vinstra megin og glompu hægra megin.
Lúmsk lokahola. Þrátt fyrir að vera aðeins um 150 metrar að lengd þá er hækkun frá teig að flöt það mikil að kylfingar vanmeta oft lengdina og ná ekki yfir grjótgarðinn sem skilur flötina frá brautinni.