Það er margt sem gerist á Hvaleyrarvelli áður en keppendur í landsmóti í holukeppni hefja leik kl 07:30.  Það sem gerir þetta mót sérstakt er að leikur hefst samtímis á 1. og 10. teig.  Undir slíkum kringumstæðum þurfa vallarstarfsmenn að hefja slátt frá 1. og 10. holu.  Að auki þá eru aðeins tveir í hverju holli og yfirleitt er leikið hratt.

Það eru 18 vallarstarfsmenn sem mæta dag hvern kl 04:00 og slá öll svæði vallarins.  Starfsmönnum er skipt upp í tvö lið sem sjá um hvorar níu holurnar fyrir sig.  Þannig er hvert lið með einn brautarsláttumann, einn sem slær svuntur og teiga, einn sem valtar flatir, tveir sem handslá flatir, einn sem slær semi-röff.  Liðin eru svo leidd af vallastjóra annarsvegar og aðstoðarvallastjóra hinsvegar og með þeim er einn aðstoðarmaður sem bregður sér í allskonar hlutverk (blása graskögla eftir sláttuvélar, raka glompur, slá svæði með orfum og loftpúðavélum og allment að aðstoða við uppsetningu).  Að auki eru tveir starfsmenn sem sjá um uppsetningu á grasteig við Hraunkot, að slá röffsvæði og tryggja að Sveinkotsvöllur sé líka sleginn.

Vallstjóri og aðstoðavallastjóri sjá um að taka holur.  Þeir sjá einnig um að mæla hraða flata og ákveða hvað er gert við hverja flöt í framhaldi af því.  Hraði flata er mjög misjafn.  Það er ekki bara nóg að slá allar flatir og valta þær og ætlast til þess að rennslið sé það sama allstaðar.  Eftir fyrsta slátt er hraðinn mældur.  Ef hraðinn er meira en einu feti undir áætluðu rennsli, þá er flötin slegin aftur.  Ef flötin er komin innanvið eitt fet frá áætluðu rennsli eftir slátt (hvort sem það er eftir einn slátt eða tvo) þá er flötin völtuð.  Ef  flötin er ekki enn búin að ná réttum hraða þá er valtað aftur.  Þannig eru sumar flatir eingöngu slegnar einu sinni, á meðan aðrar flatir eru tvíslegnar og tvívaltaðar.  Með þessu móti tekst okkur að hafa sem minnstan mun á rennsli milli flata eins og kostur er.

Það tekur okkur um 4 klst að undibúa völlinn með þessu móti.  Fyrstu holl eru yfirleitt á 3. holu þegar vallastarfsmenn eru komnir af vellinum og búnir að stilla og ganga frá öllum tækjum þannig að hægt sé að gera þetta allt aftur næsta dag.

Kveðja

Vallastarfsmenn Keilir