Vítasvæði á Hvaleyrinni
Vítasvæði á Hvaleyrinni
Fyrir meistaramótið í fyrra voru merkt fimm ný rauð vítasvæði á Hvaleyrinni með það að markmiði að flýta leik, án þess þó að breyta of mikið eðli eða hönnun vallarins og þeim áskorunum sem hann leggur fyrir kylfinga. Á 10. braut er bratta brekkan fyrir framan flötina nú rautt vítasvæði, eins á milli 15. og 18. holu, vinstra megin við 15. brautina (næst teignum á 10.) og tvö rauð vítasvæði á milli 16. og 18. brautanna.
Í stað þess að þurfa að taka fjarlægðarvíti (slá aftur af fyrri stað) ef bolti týnist í þykka karganum sem þarna er geta kylfingar nú tekið vítalausn nær þeim stað sem þeir voru að leita og sparað sér (og öðrum) tíma. Rétt er að nefna að vítasvæðin á milli 16. og 18. brauta eru tvö í þeim tilgangi að auðvelda kylfingum að finna stað til að taka vítalausn, “vegarslóði” vinnubíla skilur svæðin að.
Rétt er að hafa nokkur grunnatriði í huga þegar kemur að rauðum vítasvæðum á golfvelli.
a) Ef kylfingur finnur boltann sinn í vítasvæðinu innan þriggja mínútna má hann leika honum þaðan sem hann liggur, vítalaust, eða taka vítalausn samkvæmt reglu 17.1 (sjá mynd). Eins og sést á myndinni getur kylfingurinn valið úr þremur möguleikum til að taka víti, í öllum tilfellum gegn einu vítahöggi:
-
- Fjarlægðarvíti, leika aftur frá síðasta stað.
- Aftur-á-línu lausn, láta bolta falla aftan við vítasvæðið, á línu sem er dregin frá holunni og í gegnum staðinn þar sem boltinn fór inn í vítasvæðið.
- Hliðarlausn, láta bolta falla innan tveggja kylfulengda frá staðnum þar sem boltinn fór inn í vítasvæðið
b)Ef boltinn finnst ekki, en vitað er eða nánast öruggt að boltinn sé í vítasvæðinu skal taka vítalausn samkvæmt reglu 17.1 (sömu þrír möguleikar og að ofan)
c)Ef boltinn finnst ekki innan þriggja mínútna en ekki er vitað eða nánast öruggt að hann sé í vítasvæðinu er boltinn týndur og taka verður fjarlægðarvíti.
d)Ef vitað er eða nánast öruggt að bolti sé í vítasvæði og kylfingur telur erfitt að finna hann má hann ekki leika varabolta.
Hörður Geirsson og Gunnar Gylfason,
Golfdómarar Keilis