Hliðarvatnstorfæra, Regla 26

Öll þekkjum við vatnstorfærurnar, og eitt þar mörgum stundum við boltaleit eða við pælingar hvernig sé best að bera sig að við lausnir.

Vatnstorfærur eru annað hvort skilgreindar sem vatnstorfæra (GUL) eða hliðarvatnstorfæra (RAUÐ). Í gulu torfærunum höfum við þrjá valkosti.

  1. Fjarlægðarvíti, boltanum leikið aftur þar sem hann lá síðast. (látinn falla eins nálægt þeim stað og hægt er)
  2. Boltinn látinn falla aftan við vatnstorfæruna, þannig að sá staður þar sem upphaflegi boltinn fór síðast yfir takmörk hennar séu í beinni línu milli holunnar og þess staðar sem boltinn er látinn falla á, og án takmörkunar á því hve langt aftan við torfæruna boltinn er látinn falla.
  3. Leika boltanum þar sem hann liggur.

Í hliðarvatnstorfærum bætast svo fleiri lausnir við, (endurtek, fleiri)

  1. Láta boltann falla utan vatnstorfærunnar innan tveggja kylfulengda frá og ekki nær holunni en þeim stað þar sem upphaflegi boltinn fór síðast yfir mörk hennar , EÐA hinum meginn við hana, jafnlangt frá holu.

Eins og þið sjáið þá eru síðasti valkosturinn, kostur sem kylfingar nýta ofast nær ekki, þegar kostur er á.

Tökum dæmi, á heimavelli mínu á Hvaleyrinni. 8.braut, tjörnin er hliðarvatnstorfæra.

domarahorn

 

 

 

 

 

Fyrsta höggið endar á miðri braut, nokkuð gott högg, 160 metrar eftir í pinnan ca. Annað höggið hjá mér geigar hinsvegar (eins og flest þeirra), og boltinn tekur sveig til hægri, yfir tjörnina, lendir þar á stein og kastast til baka í tjörnina. Ég á valkosti. Ég get slegið aftur frá sama stað (fjarlægðarvíti), ég gæti líka tekið víti, innan tveggja kylfulengda við tjarnarbakkann, ofan við tjörnina, því þar skar boltinn torfæruna síðast. Það gæti þó verið erfitt að treysta á góða legu þar. Ég ætla hins vegar að velja þá lausn sem ég lagði áherslu á áðan. Ég má nefnilega fara hinum meginn við torfæruna, jafnlangt frá holu. Þar á ég jafnvel möguleika á að koma mér á snöggslegið svæði, og hugsanlega bjargað skolla.

Golfkveðja, Birkir Skúlason