Má bjóða ykkur á golfskemmtun við allra hæfi, þiggja veitingar og styrkja ungt íþróttafólk í leiðinni?

Laugardaginn 1. mars kl. 14-17 halda ungu kylfingarnir í Keili Fjölskyldufjör í Hraunkoti, Steinholti 1 í Hafnarfirði.

Hraunkot er staðsett þar sem Sædýrasafnið var áður starfrækt. Gamla hvalalaugin úr Sædýrasafninu gegnir nú nýju hlutverki. Þar rekur Golfklúbburinn Keilir eina bestu golfæfingaraðstöðu landsins og mikilvægan útungunarstað afrekskylfinga. Í Hraunkoti er hægt að æfa golf allan ársins hring við góðar aðstæður inni og úti. Þangað kemur fólk á öllum aldri að æfa golf, sumir að prófa í fyrsta sinn og þar æfa einnig bestu kylfingar landsins. Í Hraunkoti æfa kylfingar á öllum æviskeiðum; gamlir og ungir, stelpur og strákar, karlar og konur og skemmta sér saman í leik, æfingum og hörku keppni.

Nú er unnið að því að kynna golfíþróttina fyrir börnum með það að markmiði að börn hafi möguleika á því að byrja fyrr að æfa golf. Í íþróttastarfi Keilis er aukin áhersla lögð á unga iðkendur, börn á leikskólaaldri og á fyrstu árum grunnskóla. Á yngsta aldursskeiði er lögð áhersla á fjölbreytta hreyfifærni og leiki þar sem fyrstu skrefin í golfþjálfun eru tekin. Hjá þeim eldri er lögð áhersla á alhliða golfþjálfun, einstaklingsbundna golfgreiningu og þjálfun efnilegra unglinga.

Afreksunglingar í Keili eru í fremstu röð kylfinga á Íslandi og eru margir þeirra einnig góðir á alþjóðlegan mælikvarða og eiga fast sæti í landsliðum Íslands. Því má að miklu leyti þakka markvissu barna- og unglingastarfi og góðri aðstöðu til æfinga.

Afreksunglingarnir leggja mikið á sig við æfingar og keppni allt árið við ýmis veðurskilyrði. Það sem vantar uppá til að unglingarnir í Keili standi jafnfætis öðrum afrekskylfingum er að fá að spila meira við sumaraðstæður. Því er farið í æfingaferðir til útlanda að vori til að undirbúa keppnissumarið. Í lok mars verður farið í æfingarferð til suður Spánar. Af því tilefni standa afreksunglingar Keilis fyrir fjáröflun.

Unglingarnir bjóða bæjarbúum og velunnurum í heimsókn í Hraunkot laugardaginn 1. mars kl. 14-17. Þar bjóða þeir börnum og fullorðnum á öllum aldri að koma á golfskemmtun með stuttri golfkennslu við hæfi hvers og eins, golfþrautum, golfleikjum og skemmtilegum æfingum.

Aðgangseyrir er 1000 krónur fyrir fullorðna og 500 krónur fyrir 18 ára og yngri. Golfskemmtun, golfkennsla og veitingar innifaldar.

Með golfkveðju og sjáumst á laugardaginn kl. 14-17 í Hraunkoti.

Afreksunglingar Keilis