Nú á dögunum var skrifað undir samstarfssamning við Golfklúbbinn Setberg. Samningurinn snýr að viðhaldi Setbergsvallar og mun Keilir einnig sjá um innheimtu GSE. Með umhirðu er átt við öll þau verk sem þarf að vinna til þess að völlurinn sé í því ástandi sem eðlilegt er að gera kröfu um ásamt öðrum hefðbundnum störfum sem til falla. Ekki er um gagnkvæman spilarétt að ræða fyrir félagsmenn í Keili og GSE vegna samningsins. Guðbjörg Erna Guðmundsdóttir formaður Keilis og Högni Friðþjófsson formaður Setbergs undirrituðu samninginn fyrir hönd klúbbanna að viðstöddum fulltrúum úr stjórn GSE og starfsmönnum Keilis.

Guðbjörg Erna Guðmundsdóttir formaður Keilis sagði við undirritunina að mikil hagræðing fælist í samningnum fyrir báða klúbbana og myndi nýting á heilssársstarfsmönnum Keilis verða betri með samningnum. Það er gott til þess að vita að nágrannar okkar í Setbergi sækist eftir samstarfi við okkur og munum við leggja mikla áherslu á að þjónusta og gera vel við Setbergsvöll. Enda er völlurinn virkilega skemmtilegur og góð viðbót við golfsamfélagið í Hafnarfirði.

Högni Friðþjófsson formaður Setbergs sagði við undirritunina að Golfklúbburinn Setberg stæði á vissum tímamótum. Fyrir liggur að klúbburinn þarf að flytja starfsemi sína eftir nokkur ár. Vegna þessa hefur klúbburinn í samstarfi við íþróttafélög og önnur félagasamtök í Hafnarfirði óskað eftir því að hafin verði uppbygging á nýju íþrótta- og útivistarsvæði í Hafnarfirði. GSE og Keilir hafi átt í góðu samstarfi síðustu ár og með samningnum væri það samstarf útvíkkað og verður vonandi grunnur að frekara samstarfi við uppbyggingu á nýju svæði.