Nú er komið að því að Brynja okkar Þórhallsdóttir ætlar að söðla um og láta staðar numið í veitingarekstri hjá Golfklúbbnum Keili.

Brynja hefur haft veg og vanda af veitingarekstri hjá okkur í Keili í rúma tvo áratugi eða í tuttugu og eitt ár. Þegar Brynja hófst handa var veitingarekstur í golfskálum hérlendis ekki upp á marga fiska. Segja má að hún hafi sýnt og sannað, að með dugnaði og elju er hægt að byggja upp blómlegan rekstur í golfskálanum okkar.

Kveðja Brynju til félagsmanna Keilis:

„Ég þakka kærlega fyrir öll þessi ár og þann mikla stuðning sem ég hef fundið fyrir frá kylfingum og félagsmönnum Keilis í gegnum árin. Þetta hefur verið viðburðarríkur tími sem ég á eftir að líta til baka á með miklum söknuði. Ég þakka allar minningarnar sem við höfum búið til saman og óska Keili og félagsmönnum góðs gengis á komandi tímum.“

Stjórn Keilis og félagsmenn vilja þakka Brynju fyrir framúrskarandi starf í þágu klúbbsins í gegnum árin og óskum við henni velfarnaðar á nýjum vettvangi.