Þá er lokadagur meistaramóts Keilis hafin og 167 kylfingar eru ræstir út í dag, sumir afslappaðir en aðrir með útþandar taugar af spennu og tilhlökkun. Þetta meistaramót hefur gengið mjög vel, þrátt fyrir að veðurguðirnir hafi ekki spilað með okkur allan tímann. Í gær voru mjög erfiðar aðstæður og mikill rigning fyrri hluta dags ásamt miklum vindi sem breytist fljótlega í íslenskt rok. Aðstæður á Hvaleyri seinni hluta dagsins voru mjög erfiðar, en samt náðu margir kylfingar að skila inn góðu skori. Það er hins vegar áhyggjuefni hversu margir kylfingar hafa fengið frávísun þetta árið og hefur verið alltof mikið að gera hjá dómurum mótsins vegna þess. Fara þarf greinilega betur yfir þessi mál með þáttakendum á næsta ári.

 

 

Þeir Birgir Björn og Benedikt Sveinsson spiluðu frábært golf í meistaraflokki karla og voru á 71 og 70 höggum og leiðir Birgir Björn Magnússon með 7 höggum fyrir lokadaginn og en getur allt gerst. Gísli Sveinbergsson skaut sér í Tiger hollið og spilaði á 76 höggum.
Í meistaraflokki kvenna leiðir Þórdís Geirsdóttir og er hún með þægilega forustu fyrir daginn í dag og fátt sem getur stoppað að hennar fingur leiki um bikarinn í kvöld.
Björn Kristinn Björnsson spilaði og söng í gær og kom inn í hús með 74 högg sem er flott framistaða í 1.fl.karla og leiðir hann með 3 höggum. En besta skor dagsins í 1.fl.karla kom frá Friðriki Ómarssyni sem splæsti í 72 högg. Ívar Jónsson leiðir enn 2.fl.karla og hefur spilað stöðugt og gott golf alla hringina. Í 2.fl.kvenna er Högna Kristbjörg Knútsdóttir með forystu á Hildi Rún Guðjónsdóttur og þar skilja að 7 högg. Valgerður Bjarnadóttir leiðir 2.fl.kvenna og þarf að hafa sig alla við að halda Huldu Soffíu Hermannsdóttur og Þorbjörgu Albertsdóttur fyrir aftan sig.

 

 

Í Öldungaflokki karla munu svo Pétur S.Valbergsson og Sigurður Aðalsteinsson heyja baráttu um 1.sætið og eflaust mun Gylfi Sigurðsson atvinnumaður í knattspyrnu fylgjast með föður sínum. Þorbjörg Jónína Harðardóttir leiðir svo öldungaflokk kvenna er með 7 högga forystu á Hjördísi Ingvadóttur.

 

 

Það mun enn einu sinni reyna á rigningarfatnaðinn í dag, því spáin góða býður uppá það en vonandi með hægari vind en í gær. Lokahóf meistaramótsins Keilis 2013 verður svo að sjálfsögðu í kvöld og hvetjum við alla að mæta og klára mótið saman. Heimasíðan óskar svo öllum góðs gengis og þakkar skemmtilegt mót sem hefur gengið einstaklega vel fyrir sig.