Í ár stefnir í metfjölda keppenda og vallarmet á öllum teigum þegar nýr Hvaleyrarvöllur verður vígður á Meistaramóti Keilis 2024. Hér er gott ráð fyrir keppendur til þess að sigra sinn flokk. 

Margt hefur breyst í þessum leik frá 19. öldinni þegar fyrstu golfmótin voru opinberlega haldin. Reglurnar, vellirnir, grasið, kylfurnar, kúlurnar, klæðnaðurinn, tæknin og tískan hefur breyst og með því kylfingarnir sjálfir og áherslur þeirra. 

Með aukinni þekkingu, betri tækni eða nýrri tísku hafa sigursælustu kylfingar hvers tímabils aðlagast ólíkum búnaði, fengið ólíka þjálfun, verið með ólíkar sveiflur, spilað ólíka velli og átt sér ólíka styrkleika eða veikleika en þeir sem á undan þeim komu. 

Þrátt fyrir þær breytingar sem leikurinn hefur boðið kylfingum sögunnar uppá er eitt sem sigurvegarar hvers tímabils hafa gert og munu alltaf gera betur en andstæðingar þeirra. Þeir ná markmiði leiksins: Að koma kúlunni ofan í holuna á færri höggum en hinir. 

Meistaramótið 2024 verður engin untantekning á áframhaldandi breytingum í golfleiknum. Í ár verður spilað á nýjum stórglæsilegum golfholum með nýryðguðum skiltum og teigmerkingum. Margir verða eflaust komnir með nýjan dræver eða pútter og búnir að kaupa sér nýmerkt Keilis föt, á meðan aðrir eru að breyta sveifluni sinni á nýja Trackman æfingasvæðinu í Hraunkoti til að gera sig tilbúna fyrir stærsta viðburð ársins. 

Fyrir allar þær breytingar sem hafa átt sér stað, og munu eiga sér stað í þessum blessaða leik. Fyrir allar þær nýju og ókunnulegu aðstæður sem keppendur munu koma sér í næstu daga. Fyrir allar þær breytingar á sveiflu, einbeitingu eða undirbúningi sem kylfingar þurfa að gera til þess að vinna Meistaramót Keilis 2024. Fyrir alla þessa hluti… 

Komdu kúlunni ofan í holuna í færri höggum en hinir. 

Kær kveðja og gangi ykkur öllum vel í Meistaramótinu

Birgir Björn Magnússon,
Afreksþjálfari Keilis