Ágætu félagar. Golfklúbburinn Keilir var stofnaður 1967, stofnfélagar voru 64 og þá var spilað á 6 holu golfvelli á Hvaleyrinni. Frá þeim tíma hefur klúbburinn vaxið og þróast í það sem við þekkjum í dag. Nú er klúbburinn okkar fullur með um 1850 félagsmenn og biðlistinn lengist. Ásókn í golfíþróttina er mikil og eru um 4500 manns á biðlistum golfklúbba höfuðborgarsvæðisins.

Stjórn Keilis hefur um árabil kallað eftir landssvæði undir nýjan 27 holu golfvöll í landi Hafnarfjarðar. Vinna við nýtt aðalskipulag Hafnarfjarðar fer fram þessi misserin, kallað var eftir umsögnum vegna þeirrar vinnu en mikilvægt er að þar verði afmarkað svæði undir nýjan golfvöll.

Í janúar sl. sendi stjórn Keilis vel rökstudda umsögn þar sem lögð er áhersla á að í yfirstandandi endurskoðun á aðalskipulagi Hafnarfjarðar verði gert ráð fyrir landi undir nýjan 27 holu golfvöll með tilheyrandi aðstöðu.

Formaður, framkvæmdastjóri og undirritaður fóru á fund skipulags- og byggingarráðs þann 30. maí sl.  þar sem voru ítrekaðar og rökstuddar óskir golfklúbbsins Keilis um að landssvæði undir nýjan 27 holu golfvöll verði afmarkað í aðalskipulagi Hafnarfjarðar.

Stjórn Keilis væntir þess að Hafnarfjarðarbær taki vel í tillögur okkar enda mikið lýðheilsumál að kylfingar hafi öruggan aðgang að golfvöllum.

Ó. Ingi Tómasson,
Formaður mannvirkjanefndar Keilis