Með nýjum möguleikum í Golfbox gafst okkur tækifæri til að bjóða upp á fleiri möguleika en áður fyrir skráningu rástíma. Stjórn Keilis ákvað að prófa nýtt fyrirkomulag með það að markmiði að sem flestir gætu fengið góða rástíma.

Þessi prófun hefur fengið bæði góðar og slæmar viðtökur og höfum við nýtt fyrstu vikurnar til að hlusta á kylfinga til að geta bætt um enn betur.

Á síðasta stjórnarfundi  voru samþykktar nýjar bókunarreglur:

Hægt verður að skrá rástíma 6 daga fram í tímann.
*  Kylfingur getur átt að hámarki 4 virka skráða rástíma á tímabilinu
*  Skráning rástíma hefst kl. 20:00 fyrir hvern nýjan dag.
*  Fyrirkomulagið tekur gildi 1. júní 2020.

Kylfingum er ráðlagt að eiga alltaf einn af þessum fjórum til ráðstöfunar á hverjum tíma, til að geta skotist samdægurs eða með stuttum fyrirvara í lausa rástíma. Kylfingar, sem hafa fullnýtt skráningarmöguleika sína og sjá lausan rástíma sama dag, geta haft samband við golfverslun Keilis til að óska eftir skráningu á þann dag.

Við munum halda áfram að hlusta á viðbrögð kylfinga og stefnum á að senda út könnun á meðal félagsmanna og kanna hug þeirra til þessara nýju reglna.

Mikilvægt er að kylfingar staðfesti mætingu í rástíma í golfverslun eða í gegnum appið. Á næstunni munum við kynna til leiks ráðstafanir til að sporna við ‘skrópum’ í rástíma, þeas. óstaðfestar mætingar.

Spurt og Svarað um Golfbox:

1) Hvernig get ég staðfest mætingu í rástíma?

Þú getur staðfest í Appinu, 20 mín fyrir rástíma, svo fremi sem þú ert mættur á völlinn og leyfir Appinu að vita staðsetningu þína. Einnig er hægt að staðfesta í golfverslun Keilis þegar þú ert kominn á staðinn.

2) Þýðir þetta að ég get bara leikið golf 4 sinnum á 6 dögum?

Nei, um leið og þú staðfestir mætingu í rástíma opnast fyrir möguleika á að bóka nýjan tíma.

Þeir kylfingar sem  eiga 4 virkar bókanir en vilja stökkva á lausan tíma samdægurs geta annaðhvort afbókað eina skráningu eða pantað lausan tíma í gegnum golfverslunina samdægurs.

3) Hvenær get ég pantað aftur tíma í golf á netinu eftir að hafa notað 4 virkar skráningar á þessum 6 dögum?

Það er hægt um leið og viðkomandi kylfingur hefur staðfest komuna þann daginn í rástímann í gegnum appið, þá opnast fyrir eitt skipti í viðbót.

4) Hversu marga kylfinga get ég bókað í hvert skipti?

Í hverri bókun sem þú gerir máttu bóka þrjá aðra með þér, en aðeins ef þeir eiga laust pláss innan síns kvóta (4 rástímar).

5) Er einhver munur á bókun í gegnum app eða vefinn?

Nei, þetta er sama kerfið og alveg samstillt.

Við bendum félagsmönnum á að skoða hér mjög góða hjálparsíðu golfsambandsins, þar er að finna svör við hinum ýmsum spurningum sem kunna að koma upp varðandi Golfboxið:

https://golf.is/golfapp/