Það hefur líklega ekki farið fram hjá nokkrum félagsmanni í Keili að Hvaleyrarhluti vallarins hefur tekið miklum breytingum á síðustu misserum.  Nú hillir undir lok þessara miklu framkvæmda þó áfram verði unnið á breytingum á teigum og ýmsum lagfæringum.

Samfara opnun í vor á endurbættri Hvaleyri, samkvæmt hönnun Mackenzie & Ebert, munum við taka upp númerakerfi á teigum í stað þess litakerfis sem við þekkjum. Með þessum breytingum er horft til þess að kylfingar velji sér teiga eftir forgjöf en ekki aldri eða kyni. Áfram verða fjórar teigastaðsetningar sem  koma til með að bera merkingarnar 63, 57, 53 og 47. Hönnuð hafa verið smekkleg teigskilti og teigmerki og ef það síðarnefnda ber töluna 63 merkir það að heildarlengd vallarins er 6300 metrar af viðkomandi teig og svo koll að kolli. Klúbburinn mun gefa út viðmið fyrir forgjöf sem kylfingar geta mátað sig við og valið teig við hæfi. Það er von okkar í stjórn Keilis að þessar breytingar mælist vel fyrir og að framundan sé skemmtilegt golfsumar á endurbættum velli.

Kveðja,

Ellý Erlingsdóttir

formaður markaðsnefndar Keilis