Kæru félagsmenn

Eftir frekar leiðinlega tíð og langan vetur virðist loksins vera að birta til og sumarið ætlar að taka vel á móti okkur.

Síðustu mánuður hafa verið frekar óhefðbundnir vegna Covid-19 veirunnar sem hefur náð að raska á einn eða annan hátt lífi okkar allra.   Reynt var eftir fremsta megni að halda út allri þjónustu sem hægt var innan ramma samkomubannsins og var Hraunkot og golfhermar opnir fram að páskum þegar landlæknisembættið gaf út reglur varðandi golfiðkun sem tilgreindi sérstaklega að æfingasvæði þar sem sameiginlegur búnaður eins og golfboltar væru notaðir skyldu vera lokuð.  Við þurftum því að skella æfingaskýlunum í lás en héldum golfhermum áfram opnum.  Á sama tíma höfðu allar skipulagðar æfingar verið bannaðar og því engri íþróttastarfsemi fyrir að fara.   Tímanum frá páskum hefur þó verið vel varið í viðhald og mun svæðið opna aftur þann 4. Maí n.k. þegar nýjar reglur um golfleik taka gildi en þá mun íþróttastarf hefjast aftur.  Við hvetjum kylfinga til að kynna sér og fara eftir nýjum reglum við golfleik.

Völlurinn virðist ætla að koma mjög vel undan vetri og lofar góðu fyrir framhaldið. Sökum veðurs þetta vorið er hann seinni að koma til en s.l. ár og er opnun hans áætluð í kringum 15. maí.  Við munum halda hreinsunardag í tveimur hollum að þessu sinni og getum þannig dreift fólki vel um völlinn og haldið hámarksfjölda í 50 manns. Hreinsunarmótið verður á sínum stað og auglýst betur síðar en ekki verður hægt að hafa grillveislu með sama sniði og áður að því loknu vegna takamarkana sem okkur eru settar.

Golfbox er komið í loftið og margir kylfingar byrjaðir að venjast útlitinu og þeim nýjungum sem kerfið hefur upp á að bjóða og hvet ég alla kylfinga til þess að tileinka sér notkun þess sem fyrst og leita aðstoðar á skrifstofu ef þið eruð í vandræðum, Indíana tekur vel á móti ykkur.

Með tilkomu Golfbox verða ýmsir skráningarmöguleikar í boði sem við höfum ekki haft áður.  Settur var á laggirnar starfshópur í vetur til að fara yfir notkunarmöguleika og til þess að finna leiðir til að dreifa notkun rástíma sem mest og verður niðurstaða þeirrar vinnu  kynnt á næstu dögum.

Í ljósi núverandi ástands hefur stjórnin unnið að breyttri fjárhagsáætlun þar sem nokkrar sviðsmyndir hafa verið settar upp til að spegla hvaða áhrif Covid-19 hefur haft á fjárhag klúbbsins og hvaða áhrif hún mun hafa fram eftir sumri.  Það sem hefur nú þegar raungerst er tekjumissir vegna salaleigu en hún datt alveg niður í byrjun mars og svo tekjumissir vegna lokunar æfingasvæðis í apríl.

Það sem mun svo hafa áhrif í framhaldinu er að við missum allar tekjur vegna erlendra gesta sem hafa verið þónokkrar s.l. ár auk þess höfum við áhyggjur að þvi að fyrirtæki verði verr í stakk búin til kaupa af okkur þjónustu á komandi sumri.  Þetta mun gera allt rekstrarumhverfi klúbbsins erfiðara. Það sem aftur á móti vinnur með okkur er að félagsmenn verða líklega mun duglegri við að spila golf í sumar þar sem landinn mun eyða dögum sínum innanlands og hvar er þá betra að vera en á golfvellinum. Það mun að einhverju leiti sporna við neikvæðum afleiðingum veirunnar   en aðaláhersla verður sem fyrr lögð á gæði vallarins og þjónustu við félagsmenn.

Framkvæmdum verður haldið áfram samkvæmt áætlun og munum við hefjast handa við 18 flötina sem verður fyrir aftan núverandi 12 flöt. Þetta mun ekki hafa í för með sér neitt rask fyrir kylfinga.

Við stefnum svo á opnum 16. brautar í júlí.

Hér eru nokkrar lykilaðgerðir og opnanir á næstu dögum og vikum.

Sveinskotsvöllur:  Er nú þegar opin inná sumarflatir og hvet ég félagsmenn til að nota tækifæri og spila þar fram að opnun Hvaleyrarvallar. Mjög mikilvægt er að félagsmenn skrái sig á rástíma þar og er það í raun tilvalið tækifæri til að kynnast umhverfinu í golfbox.

Barna- og unglingastarf:  Skipulagðar æfingar hefjast 4.maí

Veitingasala: Brynja stefnir að opnun á veitingastaðnum 4. Maí og munu umsvif aukast og matseðill stækka eftir þörfum og því sem fram líður. Við munum áfram lúta gildandi samkomubanni verða því einungis 50 gestir leyfðir inná staðnum til að byrja með og virða þarf 2 metra regluna.

Mótahald: Það er ekkert sem hindrar að mótahald geti farið fram með eðlilegum hætti fyrir utan þær reglur sem GSÍ hefur kynnt kylfingum og eru hér á síðunni. Mótaskrá Keilis kemur inná netið nú á allra næstu dögum.

Golfverslunin: Opin og verður til að byrja með opin á skrifstofutíma. Verslunin er  troðfull af nýjum fatnaði fyrir karla og konur. Vörur frá því í fyrra eru á allt að 70% afslætti þannig að hægt er að gera góð kaup fyrir sumarið

Fyrir hönd stjórnar vil ég óska félagsmönnum gleðilegs golfssumars og erum við full tilhlökkunar fyrir komandi tímabil.

 

Kveðja

Guðbjörg Erna Guðmundsdóttir