Hvaleyrarbikarinn í karlaflokki fer á Selfoss í þetta skiptið en Andri Már Óskarsson úr Golfklúbbi Selfoss sigraði í mótinu hjá Keili á Hvaleyrarvelli í dag. Andri lék 54 holur á samtals 207 höggum og lauk leik á sex höggum undir pari samtals.

Aðstæður voru afskaplega góðar í Hafnarfirði bæði í dag og í gær. Hægviðri, skýjað og völlurinn mjög góður. Andri lagði grunninn að sigrinum með frábærum hring í gær þegar hann lék á 66 höggum. Hina hringina tvo lék hann á 71 og 70 höggum.

Andri sigraði með tveggja högga mun, næstir komu heimamennirnir Daníel Ísak Steinarsson og Axel Bóasson á samtals fjórum undir pari. Þess má geta að Axel fékk tvo erni á síðustu sjö holunum í dag, á 12. og 16. holu.

,,Ég var að slá þokkalega alla dagana og pútterinn var heitur. Mér gekk mjög vel að pútta og þá líður mér vel á vellinum. Þá þarf maður ekki að hafa áhyggjur af því að slá sig nálægt holunni. Maður tekur þá yfirleitt tvípútt eða púttar í annað slagið. Ég hef alltaf kunnað vel við völlinn og ég varð í 3. sæti í þessu móti í fyrra. Ef golfið hefur verið gott hjá manni þegar maður kemur hingað þá spilar maður vel því völlurinn er alltaf flottur og flatirnar geggjaðar. Flatirnar hafa oft verið hraðari en í þetta skiptið en voru sanngjarnar,” sagði Andri eftir að hafa veitt bikarnum viðtöku og framundan er mikið golf annars vegar í deildakeppni GSÍ og í Íslandsmótinu.

,,Spilamennskan verður alltaf betri og betri þegar líður á sumarið og ég er bara ánægður. Framundan er mikið golf. Sveitakeppni er um næstu helgi og æfingahringir fyrir hana í vikunni. Svo styttist í Íslandsmótið,” sagði Andri Þór.

 

Ragnhildur Kristinsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur sigraði í Hvaleyrarbikarnum í golfi á Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði í dag en mótið er hluti af Stigamótaröð GSÍ. Ragnhildur sigraði í mótinu í annað sinn á þremur árum því hún sigraði einnig árið 2019.

Ragnhildur landaði sigri af miklu öryggi en hún lék 54 holur á samtals 218 höggum og lauk leik á samtals fimm höggum yfir pari. Níu höggum munaði á Ragnhildi og næstu kylfingum, Berglindi Björnsdóttur einnig úr GR og Kristínu Sól Guðmundsdóttur úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar.

Ragnhildur lék mjög vel á öðrum keppnisdegi í gær og notaði þá aðeins 69 högg. Í dag lék hún á 75 höggum en sigurinn var ekki í hættu þar sem Ragnhildur paraði síðustu níu holurnar.

,,Ég er ánægð með spilamennskuna frá teig að flöt en notaði allt of mörg pútt. Ég hefði því auðveldlega getað skorað miklu betur. Sérstaklega í dag því ég held að ég hafi hitt fimmtán flatir [í tilskyldum höggafjölda] án þess að fá fugl. En ég var yfirleitt aðeins of laus í púttunum. Gaf þeim ekki alveg nógu mikið gas. Hringurinn í dag var því svolítið pirrandi en það dugði til sigurs. Í gær fann ég hins vegar góðan takt og það skilaði góðum hring. Í vikunni var ég í smá sveifluhugleiðingum og því var fínt að sjá það skila sér í mótinu,” sagði Ragnhildur eftir að hafa skilað inn skorkortinu og hún er ánægð með sinn leik nú þegar styttist í Íslandsmótið á Akureyri í ágúst.

,,Mjög svo. Mér hefur tekist að leika stöðugt og mjög gott golf í allt sumar. Ég held að meðalskorið mitt í sumar sé í kringum 71 högg og ég er því á góðum stað. En þegar komið verður norður þá verður þetta spurning um að setja niður púttin sem skipta máli og halda sér gangandi í fjóra daga,” sagði Ragnhildur Kristinsdóttir.

Bikar sem farið hefur víða

Keppt er um Hvaleyrarbikarinn og á verðlaunagripurinn sér nokkra sögu. Er hann einn af elstu bikurunum í safninu hjá golfklúbbnum Keili.  Var bikarinn gefinn af Toyota umboðinu árið 1979 eða tólf árum eftir að klúbburinn var stofnaður. Var keppt um bikarinn á opnu móti hjá Keili sem var haldið var í nokkur ár.

Bikarinn er veglegur og fremur óvenjulegur í útliti. Var hann hannaður og sérsmíðaður í listagallerí í Japan á sínum tíma. Þegar stigamótinu Hvaleyrarbikarnum var komið á fót árið 2016 þurfti að búa til annað eintak enda keppt í tveimur flokkum í Hvaleyrarbikarnum. Var bikarinn sendur til Kína með það fyrir augum að búa til eftirlíkingu en Kínverjarnir sem ætluðu að taka verkið að sér treystu sér ekki til þess þegar á hólminn var komið.

Höfðu Keilismenn þá upp á listagalleríinu í Japan og var þar smíðaður annar bikar sem gefinn var af Icewear. Þá þurfti raunar einnig að gera lítillega við bikarinn sem hafði skemmst á heimleiðinni frá Kína. Bikarinn hefur því farið nokkrar ferðir á milli Íslands og Asíu.