12/11/2025

Frábært ár í Keili – spennandi verkefni framundan.

Frábært ár í Keili – spennandi verkefni framundan.

Kæru Keilisfélagar,
Starfsárinu 2025 er nú lokið og tímabært að líta yfir farinn veg. Ég vil byrja á að þakka ykkur öllum fyrir frábært ár, góða þátttöku og einstaka samstöðu í starfi Golfklúbbsins Keilis – sérstaklega ykkur sem sýnduð mikla þolinmæði og dugnað í kringum Íslandsmótið í golfi.​​
Frábær árangur og einstakur völlur
Hápunktur ársins, að mínu mati, var völlurinn okkar, Hvaleyrarvöllur. „Þvílíkur völlur!“ var orðatiltæki sumarsins – og það með réttu. Sjaldan eða aldrei hefur íslenskur golfvöllur verið jafn glæsilegur. Vallarstjórar okkar og starfsfólk eiga miklar þakkir og heiður skilið fyrir að skapa okkur Keilisfélögum fyrsta flokks aðstæður.
Íslandsmótið í golfi
Íslandsmótið í golfi, sem haldið var á Hvaleyrarvelli, tókst í alla staði einstaklega vel. Þar fengu bestu kylfingar landsins að takast á við lengsta og einn mest krefjandi golfvöll landsins – í breytilegum veðuraðstæðum sem settu færni og seiglu á próf. Það var sönn ánægja að sjá marga Keiliskylfinga í fremstu röð og berjast um efstu sætin. Sérstaklega vil ég nefna Íslandsmeistaratitil Guðrúnar B. Björgvinsdóttur og annað sæti Axels Bóassonar – glæsilegur árangur sem gefur von um bjarta framtíð fyrir unga kylfinga Keilis sem margir hverjir sýndu frábær tilþrif.
 
Þakkir til sjálfboðaliða og styrktaraðila
Ég vil einnig færa kærar þakkir öllum þeim rúmlega 200 sjálfboðaliðum sem lögðu hönd á plóg við Íslandsmótið. Verkefnin voru ótrúlega fjölbreytt – allt frá bílastæðavörslu, salernisþrifum, þjónusta í sal og lagfæra kylfuför til dómgæslu, sjónvarpsskutlara og þjónustu í hvíta tjaldinu. Frábær samvinna og kraftur sjálfboðaliðanna skiptu sköpum fyrir árangur mótsins.
Sérstakar þakkir fá einnig Icewear, Armar og Hafnarfjarðarbær fyrir öflugan stuðning.
Rekstur og framtíðarsýn
Rekstur klúbbsins þetta árið hefur gengið vel og er í traustum höndum framkvæmdastjóra og starfsfólks. Nánari upplýsingar um reksturinn verða kynntar á aðalfundi þriðjudaginn 9. desember kl. 19:30 í golfskála Keilis, og hvet ég ykkur eindregið til að mæta.
Framundan eru spennandi tímar fyrir golfið í Hafnarfirði. Við í Keili fáum nú stuðning bæjarfélagsins til stækkunar á golfskálanum, sem lengi hefur verið of lítill fyrir okkar félagsstarf – en félagar eru nú ríflega þrefalt fleiri en þegar hann var reistur.
Jafnframt hefur verið stofnaður framkvæmdahópur á vegum Hafnarfjarðarbæjar með aðkomu Golfklúbbsins Keilis og Golfklúbbsins Setbergs til að undirbúa nýjan golfvöll í Snókalandi, norðaustan við Krýsuvíkurveg og Bláfjallaveg, sjá mynd merkt „D“. Þetta er stórt og spennandi framtíðarverkefni sem gæti haft mikil áhrif á þróun golfíþróttarinnar í Hafnarfirði.
Skoðanakönnun og þátttaka
Um þessar mundir stendur yfir árleg skoðanakönnun á meðal félagsmanna. Ég hvet ykkur eindregið til að svara henni – ykkar álit skiptir máli og hjálpar okkur að bæta völlinn og þjónustuna. (Athugið að könnunin kemur frá kasmir@kasmir.is í gegnum SurveyMonkey og gæti lent í ruslpósti.)
Aðalfundur og framboð
Á aðalfundinum verður kosið um formann og þrjá stjórnarmenn. Ég hef ákveðið að gefa kost á mér áfram sem formaður og óska eftir áframhaldandi stuðning ykkar. Tinna Jóhannsdóttir, sem setið hefur í stjórn frá 2023, hefur ákveðið að láta af störfum – henni færi ég innilegar þakkir fyrir gott samstarf og hennar óeigingjarna framlag til klúbbsins.
Ég vil jafnframt hvetja öll ykkar, og sérstaklega konur, til að taka þátt í starfi félagsins og bjóða ykkur fram til stjórnarstarfa. Fjölbreytt þátttaka styrkir félagið.
Að lokum
Ég óska þess að sem flestir mæti á aðalfundinn, taki þátt í umræðum og hafi áhrif á framtíð Golfklúbbsins Keilis. Þátttaka ykkar skiptir sköpum fyrir áframhaldandi vöxt og velgengni klúbbsins. Saman höldum við áfram að byggja upp sterkt og öflugt samfélag golfáhugafólks í Hafnarfirði.
Kærar kveðjur.
Guðmundur Örn Óskarsson
Formaður Golfklúbbsins Keilis.
Deildu þessu á þína samfélagsmiðla!

Aðrar fréttir

  • 21/10/2025
    Hvaleyrarvöllur lokar
  • 02/10/2025
    Keilisstelpur hefja leik á EM golfklúbba
  • 29/09/2025
    Æfingin verður ódýrari fyrir félagsmenn í Hraunkoti
  • 29/09/2025
    Skert þjónusta í golfskálanum
  • 22/09/2025
    Tilkynning frá bændum
  • 19/09/2025
    Bændaglíman 2025 – Skráning hefst í dag