Á flestum skorkortum er dálkur sem sýnir hvernig forgjafarhögg raðast á einstakar holur. Oft heyrist gagnrýni á þessa röð, þar sem kylfingum finnst hún endurspegla illa hvaða holur eru erfiðastar á vellinum.

Í þessari gagnrýni felst ákveðinn misskilningur, því þótt erfiðar holur séu oft á tíðum framarlega í forgjafarröðinni er það alls ekki eina atriðið sem ræður röðinni.

Forgjafarröðin er fyrst og fremst notuð í þrennum tilgangi:

  1. Í hefðbundinni punktakeppni ræður röðin því á hvaða holum við fáum að draga frá högg áður en punktar eru reiknaðir. Ef Kalli er með 15 í leikforgjöf á vellinum þar sem keppnin fer fram dregur hann eitt högg frá skori sínu áður en hann reiknar punktana á holum sem eru merktar nr. 1 – 15 á skorkortinu.
  2. Sama gildir þegar leikið er til forgjafar, hvort heldur er í keppni eða æfingahringjum, forgjafarröðin ræður því á hvaða holum við drögum frá högg áður en punktarnir eru reiknaðir.
  3. Í holukeppni með forgjöf ræður taflan því á hvaða holum annar keppandinn fær aukahögg í forgjöf. Ímyndum okkur að Óli keppi við Sigga í holukeppni. Óli er með 12 í leikforgjöf á vellinum þar sem þeir kljást og Siggi er með 8 í leikforgjöf. Mismunurinn er 4 högg og Óli fær því eitt högg í forgjöf á þeim holum sem eru merktar nr. 1 – 4 á skorkortinu.

Í fyrstu tveimur tilvikunum, þegar við reiknum punkta, má segja að allir sitji við sama borð og að það skipti litlu máli hvernig forgjöfin raðast á holurnar. Raunar kæmi okkur best ef léttustu holurnar væru framarlega í röðinni, þ.e.a.s. ef markmiðið er að fá sem flesta punkta og lækka forgjöfina.

Af hverju ræðst forgjafarröðin ekki bara af því hversu erfiðar holurnar eru? Það er fyrst og fremst vegna holukeppninnar, því þegar forgjafarröðin er notuð í holukeppni með forgjöf þarf að huga að ýmsum atriðum til að allrar sanngirni sé gætt.

Til að byrja með má nefna að fyrst tilgangur forgjafarhögganna er að jafna getumun keppenda, þá kemur það lakari keppandanum ekki endilega best að fá forgjöf á erfiðustu holurnar. Sanngjarnast er að lakari keppandinn fái forgjöf á þeim holum sem hann þarf helst á því að halda, samanborið við mótherja sinn. Þær holur sem almennt eru taldar erfiðastar á vellinum eru nefnilega ekki endilega holurnar þar sem getumunurinn sýnir sig helst.

Fleira kemur til þegar holukeppnin er höfð í huga. T.d. er í forgjafarreglum EGA mælt með því að forgjöfinni sé dreift sem jafnast yfir völlinn, m.a. með því að höggin raðist sitt á hvað á fyrri 9 holurnar og seinni 9 holurnar. Með því er komið í veg fyrir að annar hvor keppandinn hagnist á því að forgjafarhöggin staflist um of á nærliggjandi holur. Ef þau myndu t.d. öll raðast á síðustu sex holur vallarins er hætt við að sá forgjafarhærri væri búinn að tapa leiknum áður en hann gæti farið að njóta góðs af forgjöfinni sinni. Á sama hátt kæmi gæti það komið þeim forgjafarhærri til góða ef öll forgjafarhöggin röðuðust framarlega á hringnum.

Enn má nefna að í sumum leiðbeiningum um úthlutun forgjafarhögga er mælt á móti því að fyrstu höggunum sé úthlutað á 1. eða 10. holu. Slíkt geti verið ósanngjarnt ef holukeppni endar í bráðabana.

Það er því að mörgu að hyggja þegar forgjafarhöggum er úthlutað á holur. Gagnrýni á slíka úthlutun er oft á tíðum byggð á misskilningi, því eins og fyrr segir skiptir hún litlu sem engu máli í venjulegum punktaútreikningi. Þegar úthlutunin er ákveðin þarf fyrst og fremst að vinna út frá því hvað er sanngjarnast í holukeppni.

Hörður Geirsson
febrúar 2013