Níutíu og fjórir kylfingar eru skráðir til leiks í Hvaleyrarbikarnum í golfi sem hefst á Hvaleyrarvelli í Hafnarfirði á morgun, föstudag, en skráningu lauk á hádegi í gær. Mótið er stigamót og er það fjórða í röðinni á stigamótaröð GSÍ.

Leiknar eru 54 holur í mótinu á þremur dögum eða 18 holur á dag og lýkur mótinu á sunnudag. Fjöldi keppenda verður skorinn niður eftir annan hringinn. Um 70%  keppenda úr hvorum flokki komast áfram og geta leikið lokahringinn á sunnudag.

Mótið er sterkt og má benda á að lægsta forgjöf í kvennaflokki er +4,3. Sú forgjafalægsta er Ragnhildur Kristinsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur. Lægsta forgjöf í karlaflokki er +4 og sá forgjafalægsti er Dagbjartur Sigurbrandsson, einnig úr Golfklúbbi Reykjavíkur.

Fer bikarinn út úr bænum?

Hvaleyrarbikarinn er orðinn fastur punktur í tilverunni hjá Keili og á stigamótaröðinni á hverju sumri. Mótið er ávallt haldið á Hvaleyrarvelli og er hluti af mótaröðinni burtséð frá því hvort Keilir kunni að halda Íslandsmótið eða Íslandsmótið í holukeppni. Er mótið nú haldið í fjórða sinn eftir að það var endurvakið með það fyrir augum að vera stigamót.

Forgjafalægsti kylfingurinn í kvennaflokki, Ragnhildur Kristinsdóttir úr GR, sigraði í fyrra og hefur bikarinn tvívegis farið út úr bænum hjá konunum en tvívegis hafa konur úr Keili sigrað á mótinu eftir að það var endurvakið. Ragnhildur blandar sér væntanlega í baráttuna um sigurinn og þá er Íslandsmeistarinn, Guðrún Brá Björgvinsdóttir, skráð til leiks. Hún varð klúbbmeistari Keilis síðasta laugardag og hefur því leikið völlinn mikið að undanförnu. Þá er Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR, íþróttamaður ársins 2017, á meðal keppenda en hún er í efsta sæti á stigalista GSÍ eins og sakir standa. Axel Bóasson er í efsta sæti stigalistans hjá körlunum.

Heimamenn hafa unnið í öll skiptin í karlaflokki og hefur Axel tvívegis sigrað. Hann vann mótið í fyrra og á því titil að verja eins og Ragnhildur. Rúnar Arnórsson sló Axel við á dögunum í Meistaramóti Keilis en báðir léku þeir völlinn afar vel sem er vísbending um að þeir verði sterkir í Hvaleyrarbikarnum, nú nokkrum dögum síðar. GR-ingar hafa raðað sér í mörg af efstu sætunum á stigamótum sumarsins og því margir í þeirra herbúðum sem gætu blandað sér í toppbaráttuna.

Bikarinn hannaður í Japan

Keppt er um Hvaleyrarbikarinn og á verðlaunagripurinn sér nokkra sögu. Er hann einn af elstu bikurunum í safninu hjá golfklúbbnum Keili.  Var bikarinn gefinn af Toyota umboðinu árið 1979 eða tólf árum eftir að klúbburinn var stofnaður. Var keppt um bikarinn á opnu móti hjá Keili sem var haldið var í nokkur ár.

Bikarinn er veglegur og fremur óvenjulegur í útliti. Var hann hannaður og sérsmíðaður í listagallerí í Japan á sínum tíma. Þegar stigamótinu Hvaleyrarbikarnum var komið á fót árið 2016 þurfti að búa til annað eintak enda keppt í tveimur flokkum í Hvaleyrarbikarnum. Var bikarinn sendur til Kína með það fyrir augum að búa til eftirlíkingu en Kínverjarnir sem ætluðu að taka verkið að sér treystu sér ekki til þess þegar á hólminn var komið.

Höfðu Keilismenn þá upp á listagalleríinu í Japan og var þar smíðaður annar bikar sem gefinn var af Icewear. Þá þurfti raunar einnig að gera lítillega við bikarinn sem hafði skemmst á heimleiðinni frá Kína. Bikarinn hefur því farið nokkrar ferðir á milli Íslands og Asíu.

Netútsending frá 18. flöt

Á Youtube-síðu Keilis, (Keilir Golf Club), verður netútsending alla dagana frá 18. flötinni eða þegar kylfingarnir eru að skila sér heim í skála og mun Ólafur Þór Ágústsson lýsa því sem fyrir augu ber.

 

Sigurvegarar í Hvaleyrarbikarnum:

Karlaflokkur:

2016: Axel Bóasson, Keili.

2017: Vikar Jónasson, Keili.

2018: Henning Darri Þórðarson, Keili.

2019: Axel Bóasson, Keili.

 

Kvennaflokkur:

2016: Signý Arnórsdóttir, Keili.

2017: Karen Guðnadóttir, GS.

2018: Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Keili.

2019: Ragnhildur Kristinsdóttir, GR.

 

Stigalisti GSÍ:

Karlaflokkur:

  1. Axel Bóasson, Keili, 2.950 stig.
  2. Haraldur Franklín Magnús, GR, 2.053 stig
  3. Aron Snær Júlíusson, GKG, 1.975.
  4. Hákon Örn Magnússon, GR, 1.805.
  5. Andri Þór Björnsson, GR, 1.312.

 

Kvennaflokkur:

  1. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR, 3.133 stig.
  2. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Keili, 2.460.
  3. Ragnhildur Kristinsdóttir, GR, 1.873.
  4. Eva Karen Björnsdóttir, GR, 1.761.
  5. Saga Traustadóttir, GR, 1.735.