Meistaramótskveðja formanns
Meistaramótskveðja formanns
Kæru Keilisfélagar.
Nú fer í hönd hátíðarvikan okkar – Meistaramótsvikan.
Vallarstarfsmenn hafa undanfarið verið að snyrta vellina og koma þeim í besta mögulega ástand. Þessir snillingar hafa snyrt, klippt, snurfusað, skorið, rakað, sandað og ég veit ekki hvað til að gera upplifun okkar kylfinga sem allra besta í okkar bestu keppni.
Eins og flestir hafa tekið eftir kynntum við til leiks breytingu á forgjafaflokkunum. Megin markmið breytinganna var að jafna bilið á milli lægstu og hæstu forgjöf í hverjum flokki að undanskildum meistaraflokki og svo efsta flokknum. Karla flokkarnir eru núna allir með stuðul 1,9 á milli lægsta og hæsta, en konurnar eru enn jafnari með stuðul 1,6. Einn ókostur við þessa ‘jöfnun’ er að sumir flokkarnir eru fáliðaðir og aðrir stærri, en stærð flokkana var svo sem aldrei jöfn áður.
Nýjung á þessu ári er Meistaramótið á Sveinskotsvelli. Þar geta allir kylfingar tekið þátt og þannig undirbúið sig fyrir þátttöku á stóra vellinum í framtíðinni eða einfaldlega notið þess að taka þátt í tveggja daga móti á skemmtilegum velli því mótið er opið öllum félögum eins og áður sagði.
Við höfum núna keyrt Tagmarshall – grænu veskin – í um 3 vikur og er reynsla að byggjast upp hjá vallareftirlitinu og kylfingum. Kerfið gefur okkur verðmæt gögn til að greina helstu flöskuhálsa og möguleika á að bregðast fljótt við þegar tappar byrja að myndast á vellinum. Kerfið gerir það að verkum að vallarstarfsmenn geta því núna með betri vissu fylgst betur með og leiðbeint enn betur þeim sem þurfa á því að halda.
Svo að lokum vill ég minna á að við erum gestgjafar Íslandsmótsins í golfi þetta árið, sem verður haldið 7-10. ágúst. Það er vona okkar að félagar taki virkan þátt í að halda mótið því fjöldann allan af sjálfboðaliðum þarf til að allt fari vel fram. Á næstu vikum munum koma auglýsingar eftir skráningu sjálfboðaliða til ykkar og biðla ég til ykkar að nota þetta tækifæri til að vera með og upplifa bestu kylfinga landsins takast á við okkar frábæra golfvöll.
Við í stjórn og starfsmenn Keilis viljum hvetja alla félagsmenn til að koma hugmyndum og skoðunum á framfæri til að gera félagsstarfið og leikinn enn skemmtilegri.
Gangi ykkur sem allra best og njótið samverunnar.
Guðmundur Örn Óskarsson.