Nýr golfvöllur í Hafnarfirði
Nýr golfvöllur í Hafnarfirði
Þann 9. janúar sl. skipaði bæjarráð starfshóp um nýjan golfvöll í Hafnarfirði. Meginverkefni starfshópsins var að kanna mögulegar staðsetningar fyrir nýjan golfvöll í landi Hafnarfjarðar og koma með tillögu að staðsetningu svo og að móta tillögur um gerð vallar og fyrirkomulag rekstrar á nýjum golfvelli. Starshópinn skipuðu þeir Ágúst Bjarni Garðarsson, Ó. Ingi Tómasson og Guðmundur Árni Stefánsson.
Með starfshópnum unnu embættismenn og sérfræðingar frá VSÓ og Landslagi.
Starfshópurinn skilaði lokaskýrslu til bæjarráðs þann 21. ágúst sl.
Skoðaðir voru 4 valkostir á staðsetningu nýs golfvallar, niðurstaðan er eftir ítarlega greiningarvinnu rúmlega 200 ha svæði sunnan og vestan Stórhöfða og austan við Krýsuvíkurveg.
Ákveðið var að senda spurningalista á forsvarsmenn Golfklúbbsins Keilis og Golfklúbbs Setbergs, þar sem markmiðið var að átta sig á sögu, umfangi og núverandi starfsemi félaganna. Báðir klúbbar gerðu grein fyrir svörum sínum á fundi með starfshópnum.
Fram kemur í skýrslu starfshópsins að nýr golfvöllur sé komin efst á forgangslista ÍBH og er því eðlilegt næsta skref að þróa verkefnið áfram eins og minnst er á í tillögukafla skýrslunnar.
Tillögur starfshópsins:
Í góðri sátt og í samræmi við fyrirliggjandi yfirlýsingu frá Golfklúbbi Keilis og Golfklúbbi Setbergs, leggur starfshópurinn til fjórar tillögur til bæjarráðs Hafnarfjarðar við áframhaldandi vinnu við uppbyggingu á nýjum golfvelli í landi Hafnarfjarðar:
1) Staðsetning nýs golfvallar og næstu skref: Starfshópurinn leggur til að svæði undir nýjan golfvöll verði samkvæmt valkosti D og afmarkaður í nýtt aðalskipulag Hafnarfjarðarbæjar.
2) Fyrirkomulag rekstrar á nýjum golfvelli: Starfshópurinn leggur til að golfíþróttin í Hafnarfirði verði rekin undir einum hatti með bestu nýtingu mannauðs, reynslu og þekkingu. Líta má til sambærilegs reksturs Golfklúbbs Mosfellsbæjar þar sem Hlíðarvöllur og Bakkakot sameinuðust svo og Golfklúbbur Reykjavíkur með tvo velli, Grafarholtið og Korpúlfsstaðavöll, þar sem mannauður og tæki nýtast á báðum stöðum. Starfshópurinn leggur jafnframt til að verkefnið verði áfangaskipt og að kostnaðarskipting verði 80/20. Í samræmi við tillögu nr. 3 muni framkvæmdahópur m.a. fá það verkefni að útfæra ofangreint í góðu samstarfi við bæjarstjórn Hafnarfjarðar.
3) Framkvæmdahópur um uppbyggingu nýs golfvallar: Starfshópurinn leggur til að framkvæmdahópur verði skipaður um uppbyggingu á nýjum golfvelli í landi Hafnarfjarðar. Lagt er til að framkvæmdahópurinn verði skipaður fimm aðilum, þremur frá Hafnarfjarðarbæ, einum frá Golfklúbbnum Keili og einum frá Golfklúbbi Setbergs.
4) Starfshópurinn leggur til að gert verði ráð fyrir útboði og hönnun verkefnis í fjárhagsáætlun næsta árs.
Nálgast má skýrslu starfshópsins í fundargerð bæjarráðs þann 21. ágúst sl. 3. liður.
Kær kveðja,
Ingi Tómasson
Meðstjórnandi Golfklúbbsins Keilis