Samkvæmt fyrirmælum sóttvarnaryfirvalda hefur golfvöllum á höfuðborgarsvæðinu verið lokað til 19. október.

Ákvörðunin er tekin í ljósi þess að smitum vegna Covid-19 hefur fjölgað verulega á höfuðborgarsvæðinu á síðustu dögum og líkur á veldisvexti smita í faraldrinum hafa aukist.

Viðbragðshópur Golfsambands Íslands beinir því hér mér til allra golfklúbba á höfuðborgarsvæðinu að loka golfvöllum sínum fram til 19. október, eða þar til ný fyrirmæli berast frá yfirvöldum. Nánar tiltekið er um að ræða golfvelli í Reykjavík, Kópavogi, Garðabæ, Hafnarfirði, Álftanesi, Seltjarnarnesi, Mosfellsbæ, Mosfellsdal og Kjalarnesi.

Þá beinir GSÍ þeim tilmælum til kylfinga á höfuðborgarsvæðinu að virða framangreindar takmarkanir og leita þannig ekki til golfvalla utan höfuðborgarsvæðisins, enda hafa yfirvöld beint því til höfuðborgarbúa að vera ekki á ferðinni til eða frá höfuðborgarsvæðinu meira en nauðsyn krefur.

Það er einlæg von Golfsambands Íslands að golfklúbbar og kylfingar hafi skilning á þessum tilmælum og bregðist við þeim þegar í stað. Frekari upplýsingar má finna á heimasíðu Golfsambands Íslands, golf.is.

Við gerum þetta saman!

Baráttukveðjur,
Starfsfólk Keilis