Nú þegar styttist í tímabilið er ágætt að líta yfir farinn veg í vetur og kynna nýjungar sem verða á boðstólnum í sumar.

Opnun Hvaleyrarvallar veltur að mestu á veðrinu síðustu tvær vikurnar í apríl til byrjun maímánaðar. Við munum að sjálfsögðu opna um leið og færi gefst og talið er að golfvöllurinn verði ekki fyrir skemmdum vegna vor golfs. Margir spyrja sig hvers vegna hægt sé að opna velli í kringum okkur en ekki hér. Ástæðan er einna helst sú að strax frá opnun mun verða gífurlegt álag á Hvaleyrarvöll og daglega leiknir um 300 hringir á vellinum. Til þess að völlurinn ráði við slíkt álag verður gras að vera í virkum vexti svo hann geti gert við sig. Vallarstarfsmenn eru nú þegar búnir að sanda flatir, valta og undirbúa völlinn eins vel og hægt er fyrir hlýrri tíð sem kemur vonandi á næstunni. Enn er talsvert frost í jörðu og því ekki hægt að gera ráð fyrir því að gras fari að vaxa að neinu ráði þangað til það er á bak og burt.

Golfvöllurinn okkar mun taka breytingum á árinu eins og síðastliðin ár, núverandi 17. braut verður aflögð í kringum 15. júlí og opnar þá ný braut sem leysir hana af, leikin frá teig við 16. flöt upp á gömlu 13. flötina (sjá mynd). Mun þessi braut verða 14. brautin þegar breytingum á Hvaleyrarveli líkur vorið 2023, en til að byrja með verður hún 17. brautin.

Við munum einnig opna nýja 12. flöt (verðandi 18. flöt) á árinu, en hvenær það verður mun ráðast af veðri í sumar og hvernig gengur að koma flötinni og umhverfi til, vonandi um seinnipart júlí eða í byrjun ágústmánaðar.