10/05/2025

Sumarið er komið

Sumarið er komið

Framundan eru spennandi tímar fyrir okkur kylfinga. Sumarið er alveg að koma og starfsmenn okkar á fullu að koma vellinum í leikhæft ástand.

Hreinsunardagurinn var einstaklega vel heppnaður og ánægjulegt að sjá fjöldann af félögum taka til hendinni. Eftir helgina liggja nokkrir gámar af úrgangi, töluvert af torfi komið niður og búið að snyrta í alla króka og kima.

Vallarstarfsmenn okkar eru að hefja sína rútínu með slátt og frágang á næstu dögum, fullmannað verður þó ekki fyrr en eftir einhverjar vikur. Eins og við flest vitum þá byrja þeir að vinna um miðja nótt og eru oft við vinnu fram eftir morgni. Árrisulustu kylfingar okkar geta mögulega lent í því að rekast á starfsmenn að störfum. Við viljum biðja kylfinga um að sýna tillitssemi og skilning, en vallarstarfsmenn munu gera allt sem þeir geta til að klára í tíma.

 

Leikhraði

Til að hjálpa okkur við ánægjulega upplifun á vellinum verður tekið í notkun nýtt kerfi í sumar.  Það er von okkar að kerfið hjálpi okkur við að bæta leikhraða og sýnileika á hvar við getum gert betur. Hvet ykkur til að lesa meira um þetta hérna: Bættur leikhraði – Golfklúbburinn Keilir

 

Íslandsmót

Íslandsmótið í golfi verður haldið á Hvaleyrarvelli í ágúst. Komið er að okkur að bjóða bestu kylfingum landsins heim í stærstu keppni landsins í golfi, en síðast var mótið haldið hjá okkur árið 2017. Það verður gaman að sjá hvernig bestu kylfingarnir munu skora á vellinum okkar, sem er núna lengsti golfvöllur landsins eftir breytingarnar. Við munum einnig hýsa okkar hefðbundna mót á mótaröðinni ‘Hvaleyrarbikarinn’ sem verður núna í enda maí. Það verður því óvenju gestkvæmt á völlum okkar í sumar. Unnið er að því að tryggja félögum Keilis hagkvæman aðgang að nágrannavöllum á meðan á Íslandsmóti stendur, meira um það síðar.

 

Rástímar

Sama fyrirkomulag verður á rástímaskráningu og við prófuðum á seinni helmingi ársins í fyrra. Við sjáum núna að fyrstu dagarnir eru þétt setnir með skráningum, en samt hægt að finna tíma. Ef horft er lengra fram í tímann sést að það er mikið af lausum rástímum. Greinilegt er að ákveðnir hópar hafa valið að festa sér tíma lengra fram í tímann og eru jafnvel þeir einu sem eru skráðir þar núna. Við munum fylgjast vel með hvernig þetta kerfi þjónar okkur í sumar og sérstaklega á tímum þar sem eftirspurninn er í hámarki, eða meiri en á tilraunatímabilinu ágúst og september í fyrra.

 

Nýr golfvöllur fyrir Hafnfirðinga

Aðalskipulagsvinna í landi Hafnarfjarðar stendur yfir um þessar mundir. Á vegum bæjarins er starfandi starfshópur til að koma með tillögur að viðbótar landsvæði í upplandi Hafnarfjarðar fyrir útivistarsvæði með golfvelli og viðeigandi aðstöðu til handa kylfingum í Hafnarfirði. Væntanlegur golfvöllur myndi þá þjóna öllum kylfingum í Hafnarfirði. Það er von mín að við getum horft fram á bjarta tíma þar sem kylfingar í Hafnarfirði úr hvaða klúbbi sem er sameinist um slíka aðstöðu. Sem kylfingur væri alger draumur að hafa aðgengi að fleiri völlum.

 

Gleðilegt sumar.

Guðmundur Örn,
Formaður Keilis

 

Deildu þessu á þína samfélagsmiðla!

Aðrar fréttir

  • 09/05/2025
    Breytingar á vallarmörkum við 1. braut
  • 09/05/2025
    Nú byrjar ballið á Hvaleyrarvelli
  • 02/05/2025
    Keppnistímabilið fer að hefjast
  • 30/04/2025
    Hreinsunardagurinn 2025
  • 28/04/2025
    Sveinskotsvöllur opnar inn á sumarflatir í dag – Rástímabókanir hefjast
  • 23/04/2025
    Seinkun á opnun Hvaleyrarvallar