Nú er golfvertíðin hafin og báðir vellirnir okkar opnir. Af því tilefni vilja dómarar Keilis impra á örfáum atriðum varðandi völlinn:

Fallreitirnir á 2., 3., 5. og 15. holu

Undanfarin ár hafa verið fallreitir á þessum holum sem leikmenn  mega nota ef þeir dæma bolta sinn ósláanlegan. Reglulega verðum við vör við misskilning um hvenær má nota þessa fallreiti og því viljum við ítreka að:

  1. Fallreitina má einungis nota ef leikmaður dæmir bolta sinn ósláanlegan.
  2. Til að geta dæmt boltann ósláanlegan verður leikmaðurinn að hafa fundið boltann og boltinn verður að vera innan vallarins. Ef slegið er út fyrir vallarmörk eða bolti týnist má ekki nota fallreit, heldur verður að taka fjarlægðarvíti.
  3. Enn fremur má ekki nota fallreit ef fallreiturinn er nær holunni en þar sem boltinn liggur.

Skemmdir við stíga á 10. og 11. holu

Í vetur var efni keyrt niður fyrir 11. flötina og við það hafa orðið skemmdir á stígnum sem liggur frá golfskálanum meðfram 10. flötinni og inn á 11. brautina. Í staðarreglum eru þessar skemmdir skilgreindar sem hluti stígsins. Það þýðir að ef leikmaður hefur truflun af þessum skemmdum fær hann vítalausa lausn á sama hátt og ef leikmaðurinn hefði truflun af stígnum sjálfum. Sama gildir um stíginn neðan við æfingaflötina við golfskálann (sá stígur er stöku sinnum í leik á 18. holu).

Framkvæmdasvæði við 12. flöt

Nýja flötin á 12. holu og umhverfi hennar er áfram grund í aðgerð (bannreitur) eins og var í fyrrasumar. Nú nær girðingin ekki umhverfis allt framkvæmdasvæðið heldur afmarkast svæðið af girðingunni og blá-hvítum hælum. Ef bolti lendir innan svæðisins (eða ef girðingin truflar stöðu leikmannsins eða sveiflusvið) fær leikmaðurinn vítalausa lausn. Auk venjulegrar lausnar má leikmaðurinn nota annan hvorn fallreitinn sem þarna eru. Annar er neðan við 12. flötina og hinn uppi á gömlu flötinni við 18. brautina. Ólíkt öðrum fallreitum vallarins má nota þessa fallreiti þó þeir séu nær þeirri holu sem verið er að leika heldur en staðurinn þar sem boltinn liggur í eða við bannreitinn.

Efnishrúgur við 17. braut

Í vetur var safnað efni neðan við hólinn á 17. holu, til að undirbúa gerð nýrrar flatar fyrir tilvonandi 17. holu. Þessar hrúgur eru ekki merktar á neinn hátt en ef bolti lendir í hrúgunum eða þær trufla stöðu eða sveiflusvið leikmanns fæst vítalaus lausn samkvæmt golfreglunum.

Með golfkveðju og ósk um ánægjulegt samstarf í sumar.

Dómarar Keilis