Aðalfundur Keilis fór fram í gær
Aðalfundur Keilis fór fram í gær
Aðalfundur Keilis fór fram í gær. Á fundinn mættu um 50 manns.
Guðmundur Örn Óskarsson var endurkjörinn formaður klúbbsins en hann var einn í framboði.
Á fundinum var ein breyting á stjórn.
Tinna Jóhannsdóttir hafði ákveðið að stíga út úr stjórninni eftir tveggja ára setu. Við þökkum henni kærlega fyrir sín störf í þágu klúbbsins.
Már Sveinbjörnsson og Ólafur Ingi Tómasson gáfu báðir kost á sér til áframhaldandi setu í stjórn og ásamt þeim gaf Lilja Guðríður Karlsdóttir kost á sér. Voru þetta einu þrjú framboðin og voru þau því sjálfkjörin.
Farið var yfir hefðbundna aðalfundar dagsskrá og önnur mál. Þá var komið inn á tilvonandi stækkun golfskála ásamt áform um nýtt golfvallarsvæði í landi Hafnarfjarðar.
Bjarni Þór, gjaldkeri klúbbsins fór yfir reikninga yfirstandandi rekstrarárs og rekstraráætlun fyrir 2026.
Rekstur klúbbsins gekk vel á síðasta ári, afkoman var betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Mikil aukning í tekjum milli ára má reka til lengra rekstrartímabils veitingasölunnar og bættrar afkomu æfingasvæðisins eins og á síðasta ári.
Tekjur á árinu 2025 voru 569,3 mkr. samanborið við 474,8 mkr. árinu áður. Gjöld voru 525,0 mkr. samanborið við 445,9 mkr. á árinu 2025. Tekjur jukust þannig um 21% á móti kostnaði sem jókst um 18%. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) var 44,3 mkr. á árinu 2025 samanborið við 28,9 mkr. árinu áður.
Að öðru leiti vísum við í ársskýrslu og ársreikning. Bæði má nálgast hér að neðan.



