Veturinn í vetur hefur verið mun leiðinlegri en veturinn 2013-14… þ.e. fyrir okkur mannfólkið.  Hinsvegar hefur grasið ekki kvartað eins mikið undan rúmlega 40 lægðum.  Grasið er algerlega laust við sálfræðiflækjur sem fylgja gjarnan sólrýrum vetrarmánuðum, snjóþyngslum, roki og hláku.  Það sem skiptir grasið máli er að það sé ekki lokað undir klaka í lengri tíma.  Það góða við þessa ógrynni af lægðum sem við fengum yfir okkur í vetur er að þær bræddu oftast allann þann snjó og klaka sem hafði myndast.  Þetta einfaldlega gerðist ekki veturinn 2013-14 og því fór sem fór.  Næsta vetur geta kylfingar glaðst í hjarta sínu þegar þeir eru fastir heima í aftaka Suð-vestan stormi með slyddu, slabbi, fljúgandi þakplötum og tilheyrandi eignartjóni, því flatirnar á Hvaleyrinni munu að öllum líkindum koma vel undan vetri það árið.

Ástand vallarins þetta árið er því nokkuð gott.  Flatir líta vel út miðað við árstíma.  Við ættum því að geta farið að leika inn á fínar flatir um næstu mánaðarmót ef veðurguðirnir kasta ekki í okkur einu hreti í viðbót.  Við höfum nú þegar valtað allar flatir og teiga á vellinum og búnir að úða út fyrstu áburðargöfinni.  Við erum því nokkuð bjartsýnir fyrir komandi golftímabil.

Helsta vandamálið þetta vorið verður hinsvegar frostlyftingin.  Gríðarleg frostlyfting er á mörgum svæðum á Hvaleyrarholtinu, þá sérstaklega á holum 14.-16. og í 18. forflötinni.  Það verður töluverð vinna framundan við að reyna að jafna mishæðirnar.  Keilismenn eru þó ýmsu vanir þegar kemur að mishæðum á þessu svæði, en við munum engu að síður reyna að jafna svæðið eins og við getum.

Við biðjum kylfinga að fylgjast vel með heimasíðu klúbbsins næstu daga, þar sem við munum tilkynna um áætlaðan opnunardag og svo að sjálfsögðu hinn árlega vinnudag.  Kylfingar geta líkað fylgst með starfi vallastarfsmanna Keilis á Twitter (@keilirvallast, #kingkeilir) og á Facebook (Vallarstarfsmenn Keilis).​