Senn líður að aðalfundi Keilis og hefur Guðbjörg Erna Guðmundsdóttir ákveðið að bjóða sig ekki fram til áframhaldandi formennsku. Hún hefur sitið í stjórn frá árinu 2014 og verið formaður frá árinu 2018.

”Þetta er búið að vera ótrúlega skemmtilegur og lærdómsríkur tími, mikil uppbygging átt sér stað og starfið og umgjörðin í sífelldri þróun og hefur fagmennska og metnaður einkennt það starf. Það hefur verið samfellt framkvæmdaskeið þetta tímabil, breyting Hvaleyrarvallar er á lokametrunum, bygging nýs áhaldahúss langt komið og verið að ganga frá samningum um endurbætur á æfingasvæði í Hraunkoti. Auk þess sjáum við verulega aukningu í fjölda iðkenda í barna og unglingastarfi og til mikils að vinna að halda þessum hópi sem lengst í starfinu.  Ég þakka framkvæmdastjóra, stjórn og starfsfólki fyrir frábært samstarf og meðlimum Keilis fyrir stuðninginn og hlakka til að fylgjast áfram með klúbbnum dafna á komandi árum”