Kæri félagi.

Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til formanns Keilis á komandi aðalfundi og leita eftir stuðningi þínum. Síðan 1998 hef ég verið meðlimur í Keili og setið í stjórn félagsins frá 2013, sem gjaldkeri frá 2015. Þetta hafa verið skemmtileg ár og hef ég notið þess að vinna með öflugum hópi starfsfólks og stjórn félagsins að framgangi fyrir félaga Keilis.

Síðasta sumar var sérstakt að mörgu leyti. Það byrjaði seint og þegar horft er til spilaðra hringja voru met slegin, en bæði júlí og ágúst eru mest sóttu mánuðir í sögunni. Við höfum öll fundið fyrir aukinni ásókn á golfvellina okkar og mörg okkar hafa átt erfiðara en áður með að ná rástíma. Það er mín von að með góðu samtali við félaga getum við komið á skilvirkara fyrirkomulagi á skráningu rástíma og þá líka gjaldtöku fyrir aðgang að völlum okkar.

Framundan eru spennandi tímar hjá okkur í Keili. Næsta vor munum við binda endapunkt á breytingarnar á Hvaleyrarhluta vallarins. Svo er að rísa langþráð áhaldahús sem mun bæta til muna aðstöðu fyrir dýrmætan búnað okkar og vallarstarfsmenn.

Að þessu sögðu eru mikilvæg verkefni til lengri tíma sem ég brenn fyrir. Má þar nefna stækkun á klúbbhúsi, uppfærslu á æfingasvæðinu og svo kannski það allra mikilvægasta að tryggja svæði fyrir nýjan golfvöll í upplandi Hafnarfjarðar í nánu samstarfi við bæjarfélagið og Setbergið.

Keilir er frábær félagsskapur með góðan anda og stemmingu þar sem við viljum hlusta á skoðanir og hugmyndir frá öllum félögum sem geta gert okkur áfram að besta golfklúbbnum.

Það yrði mér mikill heiður að fá stuðning þinn á komandi aðalfundi.

Með kærri kveðju,
Guðmundur Óskarsson.