Á dögunum var gengið frá samning á milli Golfklúbbsins Keilis og Trackman um tvo nýja golfherma af gerðinni TM iO og allsherjar golfgreiningarvæðingar með TrackMan Range tækninni á æfingasvæði Keilis Hraunkoti. 

TM iO er nýjung í vörulínunni hjá Trackman og eru þeir sérstaklega hannaðir fyrir innanhúss notkun. Þeir eru frábrugðnir hinum hefðbundnu TM 4 sem margir kylfingar kannast við, en TM iO eru staðsettir upp í loftinu sem gerir það að verkum að nákvæmni mælinga er enn meiri. Þessir hermar hafa fengið mjög góða dóma hjá notandum og helstu sérfræðingum í golfhermaheiminum.
Þá kemur nýtt stýrikerfi með hermunum sem mun auka upplifun notanda sem um munar. Yfir 280 af vinsælustu golfvöllum heimsins eru í kerfinu og mun Hvaleyrarvöllur bætast í hóp þeirra þegar fram líða stundir.
Áætlað er að hermarnir verði klárir í febrúar.

TrackMan Range er byltingakennd radar mælingartækni sem veitir lykilupplýsingar fyrir hvert slegið högg á útisvæðinu. Þegar högg hefur verið slegið eru radarar úti á æfingasvæðinu sem mæla flug boltans á sjálfvirkan hátt. Nákvæm lengd bolta á flugi, hraði og ferill birtist í rauntíma á skjá, á bæði einfaldan og skýran hátt. Með vorinu verða settir upp 21 tommu skjáir og greiningarbúnaður í alla bása í nýja skýlinu í Hraunkoti og geta þá félagsmenn og gestir séð nákvæma sýndargreiningu á golfhöggum sínum eða leika sína uppáhalds golfvelli á æfingasvæðinu. Ásamt því að geta stundað allskonar æfingar sem eru í kerfinu. 

Öflugir hitalampar verða einnig settir uppí hverjum bás þannig að lengd æfingatímabilsins mun lengjast í Hraunkoti við þá breytingu. Ráðist verður í þessar breytingar með vorinu

 

Ólafur Þór Ágústsson, framkvæmdastjóri Keilis sagði við undirskrift samningsins: 

Þetta verður algjör bylting fyrir félagsmenn og gesti okkar í Hraunkoti að geta nálgast greiningartækni í hverjum bás úti. Leikið sýna uppáhaldsgolfvelli eða farið í eitthvað af þeim fjölmörgu æfingum sem hægt er að setja upp í kerfinu. Við bindum einnig miklar vonir við nýju hermana sem eru mun einfaldari í notkun en þeir sem nú eru og verða vonandi til að auka ánægju félagsmanna og gesta á þeirri heimsókn til okkar. Svo má ekki gleyma því að öflugur hitari í hverjum bás úti mun styrkja Hraunkot sem eina bestu heilsársgolfæfingaraðstöðu á höfuðborgarsvæðinu.