Mikil spenna er hlaupin í baráttuna um Hvaleyrarbikarinn í golfi í kvennaflokki fyrir lokadaginn á morgun. Gamall refur jók forystuna í karlaflokki.

Perla Sól Sigurbrandsdóttir úr Golfklúbbi Reykjavíkur saxaði á forskot Huldu Clöru Gestsdóttur úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar á öðrum keppnisdegi í dag. Perla lék Hvaleyrarvöll í Hafnarfirði á 72 höggum í rigningunni í dag en Hulda á 75 höggum. Hulda Clara hefur því tveggja högga forskot fyrir lokadaginn á morgun. Sveiflurnar hjá henni voru miklar á milli daga en hún lék á 66 höggum í blíðviðri í gær.

Ljóst er að baráttan um sigurinn verður á milli þeirra en næstu kylfingar eru 10 höggum á eftir Huldu en það eru GR-ingarnir Helga Signý Pálsdóttir og Berglind Björnsdóttir.

Skemmtilegt gæti verið fyrir golfáhugafólk að rölta með Huldu og Perlu á morgun en þar fara Íslandsmeistararnir í golfi 2021 og 2022.

Kristján Þór Einarsson úr Golfklúbbi Mosfellsbæjar jók forskot sitt í karlaflokki úr einu höggi í þrjú. Kristján lék á 69 höggum og hefur þriggja högga forskot á heimamanninn Daníel Ísak Steinarsson úr Keili og Sigurð Arnar Garðarsson úr GKG. Daníel fikraði sig vel upp listann með því að leika á 67 höggum og Sigurður Arnar var á 68 höggum.

Íslandsmeistarinn Logi Sigurðsson úr Golfklúbbi Suðurnesja fann sig ekki vel í rigningunni og lék á 74 höggum en var á 67 í gær. Sömu sögu er að segja af GR-ingnum Andra Þór Björnssyni sem var á sama skori báða dagana.

Fróðlegt verður að sjá hvort Daníel og Sigurði takist að setja pressu á Kristján á morgun sem er öllu reyndari kylfingur enda tvöfaldur Íslandsmeistari í höggleik.