Í framhaldi af stefnumótunarfundi Keilis þann 16. mars s.l. hefur verið skipaður starfshópur/nefnd til að halda utanum félagsstarf kylfinga klúbbsins 67 ára og eldri. Starfshópurinn sem reyndar er ekki að fullu skipaður kom saman til fyrsta fundar í gær 2. apríl til að hefja mótun starfsins.

Stjórn Keilis hefur mikinn áhuga á að efla starfið hjá þessum hóp og að allir fái grundvöll til að kynnast og eyða tíma saman á golfvöllum Keilis. Starshópurinn mun starfa sjálfstætt og með stuðningi stjórnar. Þessi aldurshópur innan Keilis er sístækkandi og við náum sem betur fer að eyða lengri tíma ævinnar við iðkun golfíþróttarinnar. Það kom skýrt fram í stefnumótunarvinnu Keilis að það vantaði skipulagt starf í kringum þennan aldurshóp og við því ætlar stjórnin að bregðast með þessum hætti.

Þeir sem þegar eru skipaðir í hópinn eru:

Ágúst Húbertsson, Guðmundur Friðrik Sigurðsson, Hallgrímur Hallgrímsson, og Hjörvar O. Jensson, en unnið er að því að fá til samstarfs við hópinn konu eða konur og eru ábendingar vel þegnar og óskast að þeim verði komið á framfæri við Ólaf Þór framkvæmdastjóra.

Starfshópnum/nefndinni er ætlað að hafa með hendi utanumhald um mótahald og aðra viðburði fyrir kylfinga Keilis sem orðnir eru 67 ára og eldri.

Hópnum/nefndinni er á engan hátt stefnt gegn þeim hópum, formlegum eða óformlegum, sem starfað hafa innan klúbbsins, heldur þvert á móti auka frekar og auðga starf (h)eldri kylfinga klúbbsins.

Verið er að vinna að mótaskrá fyrir Öldunga 67+ sem væntanlega inniheldur æfingamót í maí og síðan sex móta mótaröð sem dreifist á sumarið. Og meiningin er að ljúka mótaröðinni með lokahófi og verðlaunaafhendingu um miðjan september. Stefnt er að því að halda eitt mótið undir lok ágúst á einum af vinavöllum Keilis í nágrenninu. Og almennt stefnt að því að hafa þessi mót sem allra skemmtilegust og í þeim góðan sannkallaða Keilisanda. Einnig verður vetrarstarf skipulagt í Hraunkoti, golfhermamót, púttmót auk annara viðburða. Meira um það síðar.

Að lokum eru allir Keilisfélagar 67+ konur og karlar hvattir til að fylgjast með frekari fréttum af þessu starfi, vera með og taka þátt af fullum krafti þegar mótin hefjast og í öðru starfi sem fram kann að koma í tímans rás.